Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/94

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
94. Saga Emundar lögmanns


Maður er nefndur Emundur af Skörum. Hann var þar lögmaður í Gautlandi vestra og var manna vitrastur og orðsnjallastur. Hann var ættstór og frændmargur, stórauðigur. Hann var kallaður undirhyggjumaður og meðallagi trúr. Hann var maður ríkastur í Vestra-Gautlandi þá er jarl var á brott farinn.

Það vor er Rögnvaldur jarl fór af Gautlandi þá áttu Gautar þing sín í milli og kærðu þeir meðal sín oftlega hvað Svíakonungur mundi til taka. Þeir spurðu það að hann var þeim reiður fyrir það er þeir höfðu vingast við Ólaf Noregskonung heldur en haldið deilu við hann. Hann bar og sakir á þá menn er fylgt höfðu Ástríði dóttur hans til Noregs. Mæltu það sumir að þeir skyldu leita sér trausts til Noregskonungs og bjóða honum sína þjónustu. Sumir löttu þess og sögðu að Vestur-Gautar höfðu eigi styrk til þess að halda deilu í móti Svíum „en Noregskonungur verður oss fjarri,“ segja þeir, „því að landsmegin hans er oss fjarri og er sá til fyrst að gera menn til Svíakonungs og freista að vér komumst í sætt við hann. En ef það fæst eigi þá er sá kostur að leita sér trausts til Noregskonungs.“

Báðu þá bændur Emund að fara þessa sendiför en hann kvað já við og fór með þrjá tigu manna og kom fram í Eystra-Gautlandi. Voru þar margir frændur hans og vinir. Fékk hann þar góðar viðurtekjur. Hann átti þar tal við hina vitrustu menn um þetta vandmæli og kom það allt ásamt með þeim og þótti mönnum það siðlausa og löglausa er konungur gerði við þá.

Fór þá Emundur upp í Svíþjóð og átti þar tal við marga ríkismenn og kom þar allt í einn stað niður. Hann hélt þá fram ferð sinni til þess er hann kom aftan dags til Uppsala. Tóku þeir sér þar gott herbergi og voru þar um nóttina.

Eftir um daginn gekk Emundur á konungs fund þá er konungur sat á stefnu og fjölmennt um hann. Emundur gekk fyrir hann og hneig honum og kvaddi hann. Konungur sá í móti honum og heilsaði honum og spurði hann að tíðindum.

Emundur svarar: „Smá ein tíðindi eru með oss Gautum. En það þykir oss nýnæmi er Atti hinn dælski á Vermalandi fór í vetur upp á markir með skíð sín og boga. Hann köllum vér mestan veiðimann. Hann hafði fengið á fjalli svo mikla grávöru að hann hafði fyllt skíðsleða sinn svo sem mest gat hann flutt eftir sér. Þá sneri hann heim af mörkinni. Hann sá einn íkorna í viðinum og skaut að honum og missti. Þá varð hann reiður og lét lausan sleðann og renndi eftir íkornanum. En íkorninn fór jafnan þar sem þröngstur var skógurinn en stundum í viðarræturnar, stundum í limar upp, þá sigldi hann milli limanna í annað tré. En er Atti skaut að honum þá fló æ fyrir ofan eða neðan en aldrei fór íkorni svo að eigi sá Atti hann. Honum gerðist svo mikið kapp á þessi veiði að hann skreið þar eftir allan dag en eigi að heldur gat hann veitt þann íkorna. En er myrkva tók kastaði hann sér niður á snæ sem hann var vanur og lá þar um nóttina. Veður var drífanda. Eftir um daginn fór Atti að leita skíðsleða síns og fann aldregi síðan og fór heim við svo búið. Slík eru mín tíðindi herra.“

Konungur segir: „Lítil tíðindi ef ekki er meira frá að segja.“

Emundur svarar: „Var enn fyrir skömmu það er tíðindi má kalla, að Gauti Tófason fór með fimm herskipum út eftir Gautelfi. En er hann lá í Eikureyjum þá komu þar Danir fimm kaupskipum stórum. Þeir Gauti unnu skjótt fjögur kaupskipin og létu enga menn en fengu óf fjár en hið fimmta skip komst á haf undan og komu þeir segli við. Gauti fór eftir þeim einskipa, dró fyrst eftir þeim. Þá tók veðrið að vaxa, gekk þá meira kaupskipið, sóttist þá hafið. Vildi þá Gauti aftur snúa. Þá gerði storm veðurs. Braut hann skipið við Hlésey, týndist fé allt og meiri hlutur manna. En hans förunautar skyldu bíða í Eikureyjum. Þá komu að þeim Danir fimmtán kaupskipum og drápu þá alla en tóku allt fé það er þeir höfðu áður fengið. Svo gafst þeim ágirnin.“

Konungur svarar: „Þetta eru mikil tíðindi og frásöguleg. En hvert er þitt erindi hingað?“

Emundur svarar: „Eg fer herra að leita úrlausnar um vandmæli þau er lög vor greinir og Uppsalalög.“

Konungur spyr: „Hvað er það er þú vilt kæra?“

Emundur svarar: „Þar voru tveir menn öðlibornir, jafnir að ætt en ójafnir að eignum og skaplyndi. Þeir deildu um jarðir og gerði hvor öðrum skaða og sá meira er ríkari var áður. En þeirra deila var niður sett og dæmt um á allsherjarþingi. Hlaut sá að gjalda er ríkari var áður. En að fyrsta sali galt hann gagl fyrir gás, grís fyrir gamalt svín, en fyrir mörk gulls brennds reiddi hann hálfa mörk gulls en aðra hálfa mörk af leiri og móðu, og enn umfram hét hann hinum afarkostum er þetta fé tók í sína skuld. Hvað dæmið þér hér um herra?“

Konungur segir: „Gjaldi fullum gjöldum það er dæmt var en konungi sínum þrjú slík. En ef það er eigi goldið fyrir jafnlengd þá fari hann útlagur af allri eigu sinni, falli fé hans hálft í konungsgarð en hálft til þess er hann átti sök að bæta.“

Emundur skírskotaði þessum úrskurði undir þá menn alla er þar voru ríkastir til og skaut til þeirra laga er gengu á Uppsalaþingi. Eftir það heilsaði hann á konung og gekk út síðan. En þá hófu aðrir menn sínar kærslur fyrir konungi og sat hann lengi dags yfir málum manna.

En er konungur kom til borðs þá spurði hann hvar Emundur lögmaður væri. Honum var sagt að hann var heima í herbergi.

Þá mælti konungur: „Gangi eftir honum, hann skal vera í boði mínu í dag.“

Því næst komu inn sendingar og þar eftir fóru inn leikarar með hörpur og gígjur og söngtól og þar næst skenkingar. Var konungur allkátur og hafði marga ríka menn í boði sínu og gáði þá ekki Emundar. Drakk konungur þann dag allan og svaf eftir um nóttina.

En að morgni er konungur vaknaði þá hugsaði hann hvað Emundur hafði talað um daginn. En er hann var klæddur lét hann kalla til sín spekinga sína. Ólafur konungur hafði með sér tólf hina spökustu menn. Þeir sátu yfir dómum með honum og réðu um vandamál en það var eigi vandalaust því að konungi líkaði illa ef dómum var hallað frá réttu en eigi hlýddi að mæla á móti honum. Á þeirri málstefnu tók konungurinn til orða og bað þangað kalla Emund lögmann.

En er sendimaður kom aftur: „Herra,“ segir hann, „Emundur lögmaður reið í brott gærdags þegar er hann hafði snætt.“

Þá mælti konungur: „Segið það góðir höfðingjar hvað vissi sú lagafrétt er Emundur spurði í gær?“

Þeir svöruðu: „Herra þér munuð það hugsað hafa ef það kom til annars en hann mælti.“

Konungurinn mælti: „Þeir tveir öðlibornir menn er hann sagði þá frá er ósáttir höfðu verið, og þó annar ríkari og gerði hvor öðrum skaða, þar sagði hann frá okkur Ólafi digra.“

„Svo er herra,“ sögðu þeir, „sem þér segið.“

Konungur segir: „Dómur var á voru máli á Uppsalaþingi. En hvar kom það til er hann sagði frá að vangoldið var er gagl var fyrir gás en grís fyrir gamalt svín en leir hálft fyrir gull?“

Arnviður blindi svarar. „Herra,“ segir hann, „það er ólíkast, rautt gull og leir, en meira skilur konung og þræl. Þér hétuð Ólafi digra dóttur yðarri Ingigerði. Er hún konungborin í allar álfur, af Uppsvíaætt er tignust er á Norðurlöndum því að sú ætt er komin frá goðunum sjálfum. En nú hefir Ólafur konungur fengið Ástríðar en þó að hún sé konungsbarn þá er ambátt móðir hennar og þó vindversk. Mikill munur er þeirra konunga er annar þiggur slíkt með þökk og er það með von að ekki megi jafnast einn Norðmaður við Uppsalakonung. Gjöldum þar allir þökk fyrir að það haldist því að goðin hafa lengi haft rækt mikla á ástmönnum sínum þótt nú óræki margir þann átrúnað.“

Þeir voru bræður þrír: Arnviður blindi, hann var sýndur svo lítt að varla var hann herfær og manna snjallastur, annar var Þorviður stami, hann fékk eigi mælt tveimur orðum lengra samt, hann var þar maður djarfastur og einarðastur, þriðji hét Freyviður daufi, hann heyrði illa. Þeir bræður allir voru menn ríkir og auðgir, kynstórir og forvitra og allir kærir konungi.

Þá mælti Ólafur konungur: „Hvað veit það er Emundur sagði frá Atta dælska?“

Þá svarar engi og sá hver til annars.

Konungur mælti: „Segið nú.“

Þá mælti Þorviður stami: „Atti: atsamur, ágjarn, illgjarn; dælskur: fólskur.“

Þá mælti konungur: „Hver á þessa sneið?“

Þá svarar Freyviður daufi: „Herra mæla munu menn berara ef það skal vera í yðru orlofi.“

Konungur mælti: „Tala nú Freyviður í orlofi það er þú vilt mæla.“

Freyviður tók þá til máls: „Þorviður bróðir minn, er vor er vitrastur kallaður, kallar þann allan einn Atta og atsaman, dælskan og fólskan. Þann kallar hann svo er leiður er friðurinn svo að hann keppist til smárra hluta og fær þó eigi en lætur fyrir þá sök farsællega hluti stóra. Nú em eg svo daufur en svo hafa nú margir mælt að eg hefi mátt skilja að mönnum líkar illa, bæði ríkum og alþýðu, það er þér herra haldið eigi orð yður við Noregskonung en hitt enn verr er þér rjúfið dóm allsherjar, þann er ger var á Uppsalaþingi. Eigi þurfið þér að hræðast Noregskonung eða Danakonung og engan annan meðan Svíaher vill fylgja yður en ef landsfólkið snýst á hendur yður með einu samþykki þá sjáum vér vinir yðrir eigi ráð til, þau er víst er að duga muni.“

Konungur spyr: „Hverjir gerast höfuðsmenn að því að ráða land undan mér?“

Freyviður svarar: „Allir Svíar vilja hafa forn lög og fullan rétt sinn. Lítið á hitt herra hversu margir höfðingjar yðrir sitja hér nú yfir ráðagerðinni með yður. Eg ætla hitt satt að segja að vér séum hér sex er þér kallið ráðgjafa yðra en allir aðrir hygg eg að á brott séu riðnir og farnir í hérað og eiga þar þing við landsfólkið og yður satt að segja þá er herör upp skorin og send um land allt og stefnt refsiþing. Allir vér bræður höfum verið til beðnir að eiga hlut í þessi ráðagerð en engi vor vill eiga það nafn að heita drottinsviki því að eigi var svo vor faðir.“

Konungur tók þá til máls: „Hvert úrráð skulum vér nú hafa? Vandi mikill er nú til handa borinn. Gefið nú ráð til góðir höfðingjar að eg fái haldið konungdóminum og föðurarfi mínum en ekki vil eg deila kappi við allan Svíaher.“

Arnviður blindi svarar: „Herra það sýnist mér ráð að þér ríðið ofan í Árós með það lið er yður vill fylgja og takið þar skip yður og farið svo út í Löginn, stefnið þá til yðar fólkinu, farið nú ekki með stirðlæti, bjóðið mönnum lög og landsrétt, drepið niður herörinni. Mun hún enn ekki víða hafa farið yfir landið því að stund hefir skömm verið. Sendið menn yðra þá er þér trúið til fundar við þá menn er þetta ráð hafa með höndum og freista ef þessi kurr mætti niður setjast.

Konungur segir að hann vill þetta ráð þekkjast. „Vil eg,“ segir hann, „að þér bræður farið þessa ferð því að eg trúi yður best af mínum mönnum.“

Þá mælti Þorviður stami: „Eg mun eftir vera en Jakob fari. Þess þarf.“

Þá mælti Freyviður: „Gerum svo herra sem Þorviður mælir. Hann vill eigi við yður skiljast í þessum háska en við Arnviður munum fara.“

Þessi ráðagerð var framgeng að Ólafur konungur fór til skipa sinna, hélt út í Löginn og jók honum þá brátt fjölmenni.

En Freyviður og Arnviður riðu út á Ullarakur og höfðu með sér Jakob konungsson og drápu þó dul um hans ferð. Þeir urðu brátt varir við að þar var fyrir safnaður og herhlaup er bændur áttu þing dag og nótt. En er þeir Freyviður hittu þar fyrir frændur sína og vini þá segja þeir það að þeir vilji ráðast í flokkinn en því taka allir feginsamlega. Var þá þegar ráðum skotið til þeirra bræðra og dregst þar til fjölmennið og mæla þó allir eitt og segja svo að þeir skulu aldrei lengur hafa Ólaf konung yfir sér og eigi vilja þeir honum þola ólög og ofdramb það er hann vill einskis manns máli hlýða þótt stórhöfðingjar segi honum sannindi.

En er Freyviður fann ákafa lýðsins þá sá hann í hvert óefni komið var. Hann átti þá stefnur við landshöfðingja og talaði fyrir þeim og mælti svo: „Svo líst mér, ef þetta stórræði skal fram fara, að taka Ólaf Eiríksson af ríkinu, sem vér Uppsvíarnir munum vera skulu fyrir. Hefir hér svo jafnan verið að það er Uppsvíahöfðingjar hafa staðfest sín í millum þá hafa þeim ráðum hlýtt aðrir landsmenn. Eigi þurftu vorir feður að þiggja ráð að Vestur-Gautum um sína landstjórn. Nú verðum vér eigi þeir ættlerar að Emundur þurfi oss ráð að kenna. Vil eg að vér bindum saman ráð vor frændur og vinir.“

Þessu játuðu allir og þótti vel mælt. Eftir það snýst allur fjöldi lýðsins til þess sambands er Uppsvíahöfðingjar tóku með sér. Voru þeir þá höfðingjar fyrir liði Freyviður og Arnviður.

En er það fann Emundur þá grunaði hann hvort þetta ráð mundi framgengt verða. Fór hann þá til fundar við þá bræður og áttu þeir tal saman.

Spyr þá Freyviður Emund: „Hverja ætlan hafið þér um það ef Ólafur Eiríksson er af lífi tekinn, hvern konung viljið þér hafa?“

Emundur segir: „Þann er oss þykir best til fallinn hvort sem sá er af höfðingjaætt eða eigi.“

Freyviður svarar: „Eigi viljum vér Uppsvíarnir að konungdómur gangi úr langfeðgaætt hinna fornu konunga á vorum dögum meðan svo góð föng eru til sem nú, er Ólafur konungur á tvo sonu, og viljum vér annan hvorn þeirra til konungs og er þó þeirra mikill munur. Annar er öðliborinn og sænskur að allri ætt en annar er ambáttarsonur og vindverskur að hálfri ætt.“

Að þessum úrskurð varð rómur mikill og vilja allir Jakob til konungs.

Þá mælti Emundur: „Þér Uppsvíarnir hafið vald til að ráða þessu að sinni en hitt segi eg yður sem eftir mun ganga að þeir sumir er nú vilja ekki annað heyra en konungdómur í Svíþjóð gangi í langfeðgaætt, nú munu þeir sjálfir lifa og játa þá er konungdómur mun í aðrar ættir koma og mun það betur hlýða.“

Eftir það létu þeir bræður Freyviður og Arnviður leiða fram á þingið Jakob konungsson og létu honum þar gefa konungsnafn og þar með gáfu Svíar honum Önundar nafn og var hann svo síðan kallaður meðan hann lifði. Þá var hann tíu vetra eða tólf Eftir það tók Önundur konungur sér hirð og valdi með sér höfðingja og höfðu þeir allir saman lið svo mikið sem honum þótti þurfa en hann gaf þá heimfararleyfi öllum bóndamúgnum.

Eftir það fóru sendimenn í milli konunganna og því næst kom svo að þeir hittust sjálfir og gerðu sætt sína. Skyldi Ólafur vera konungur yfir landi meðan hann lifði. Hann skyldi og halda frið og sætt við Noregskonung og svo við þá menn alla er í þeirri ráðagerð höfðu vafist. Önundur skyldi og konungur vera og hafa það af landi er semdist með þeim feðgum en vera skyldur til þess að fylgja þá bóndum ef Ólafur konungur gerir nokkura þá hluti er bændur vildu eigi þola honum.

Eftir það fóru sendimenn til Noregs á fund Ólafs konungs með þeim erindum að hann skyldi fara í stefnuleiðangur til Konungahellu í móti Svíakonungi og það með að Svíakonungur vill að þeir tryggi sættir sínar.

En er Ólafur konungur heyrði þessa orðsending þá var hann enn sem fyrr gjarn til friðarins og fer hann með liði sínu sem ákveðið var. Kom þar þá Svíakonungur og er þeir mágar hittust þá binda þeir sætt milli sín og frið. Var þá Ólafur Svíakonungur góður viðmælis og mjúklyndur.

Svo segir Þorsteinn fróði að byggð sú lá í Hísing er ýmist hafði fylgt til Noregs eða til Gautlands. Þá mæltu þeir konungarnir sín í milli að þeir skyldu hluta um eign þá og kasta til teningum. Skyldi sá hafa er stærra kastaði. Þá kastaði Svíakonungur sex tvö og mælti að Ólafur konungur þurfti þá eigi að kasta.

Hann segir og hristi teningana í hendi sér: „Enn eru sex tvö á teningunum og er guði drottni mínum enn lítið fyrir að láta það upp horfa.“

Hann kastaði og horfðu upp sex tvö. Þá kastaði Ólafur Svíakonungur og enn tvö sex. Þá kastaði Ólafur Noregskonungur og var sex á öðrum en annar hraut í sundur og voru þar á sjö. Eignaðist hann þá byggðina. Eigi höfum vér heyrt getið fleiri tíðinda á þeim fundi. Skildust konungar sáttir.