Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/97

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
97. Frá Einari jarli og Brúsa jarli


Þeir bræður Einar og Brúsi voru ólíkir á skaplyndi. Brúsi var hógvær og samsmaður mikill, vitur og málsnjallur og vinsæll. Einar var stirðlyndur, fálátur og óþýður, ágjarn og fégjarn og hermaður mikill.

Sumarliði var líkur Brúsa í skaplyndi og var hann elstur og lifði skemmst þeirra bræðra. Hann varð sóttdauður. Eftir andlát hans taldi Þorfinnur til síns hluta í Orkneyjum. Einar svarar því að Þorfinnur hefði Katanes og Suðurland, það ríki er áður hafði átt Sigurður jarl faðir þeirra og taldi hann það miklu meira en þriðjung Orkneyja og vildi hann eigi unna Þorfinni skiptis. En Brúsi lét uppi skipti fyrir sína hönd „og vil eg,“ segir hann, „ekki ágirnast að hafa meira af löndum en þann þriðjung er eg á að frjálsu.“

Þá tók Einar undir sig tvo hluti eyja. Gerðist hann þá ríkur maður og fjölmennur, var oft á sumrum í hernaði og hafði útboð mikil í landinu en allmisjafnt varð til fengjar í víkingunni. Þá tók bóndum að leiðast það starf en jarl hélt fram með freku öllum álögum og lét engum manni hlýða í móti að mæla. Einar jarl var hinn mesti ofstopamaður. Þá gerðist í hans ríki hallæri af starfi og fékostnaði þeim er bændur höfðu. En í þeim hluta lands er Brúsi hafði var ár mikið og hóglífi bóndum. Var hann vinsæll.