Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/98

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
98. Frá Orkneyingajörlum


Maður hét Ámundi, ríkur og auðigur. Hann bjó í Hrossey í Sandvík á Hlaupandanesi. Þorkell hét sonur hans og var hann allra manna gervilegastur í Orkneyjum. Ámundi var hinn vitrasti maður og einna manna mest virður í eyjunum.

Það var eitt vor að Einar jarl hafði þá útboð enn sem hann var vanur en bændur kurruðu illa og báru fyrir Ámunda og báðu hann mæla þeim nokkura forstoð við jarl.

Hann svarar: „Jarl er óáhlýðinn,“ og telur ekki stoða munu að biðja jarl né einnar bænar um þetta. „Er vinátta vor jarls og góð að svo búnu en mér þykir við voða búið ef vér verðum rangsáttir, við skaplyndi hvorratveggju. Mun eg mér,“ segir Ámundi, „engu af skipta.“

Þá ræddu þeir þetta við Þorkel. Hann var trauður til og hét þó um síðir við áeggjan manna. Ámunda þótti hann of brátt heitið hafa. En er jarl átti þing þá mælti Þorkell af hendi bónda og bað jarl vægja mönnum um álögur og taldi upp nauðsyn manna.

En jarl svarar vel og segir að hann skyldi mikils virða orð Þorkels: „Eg hafði nú ætlað sex skip úr landi að hafa en nú skal eigi meir hafa en þrjú. En þú, Þorkell, bið eigi oftar slíkrar bænar.“

Bændur þökkuðu vel Þorkatli liðveislu sína. Fór jarl í víking og kom aftur að hausti.

En eftir um vorið hafði jarl sömu boð sem hann var vanur og átti þing við bændur. Þá talaði Þorkell enn og bað jarl vægja bóndum. Jarl svarar þá reiðulega og segir að hlutur bónda skyldi þá versna við hans umræðu. Gerði hann sig þá svo reiðan og óðan að hann mælti að þeir skyldu eigi annað vor báðir heilir á þinginu og sleit síðan því þingi.

En er Ámundi var vís hvað þeir Þorkell og jarl höfðu við mælst þá bað hann Þorkel á brott fara og fór hann yfir á Katanes til Þorfinns jarls. Þorkell var þar lengi síðan og elskaði að jarli er hann var ungur og var hann síðan kallaður Þorkell fóstri og var hann ágætur maður.

Fleiri voru þeir ríkismenn er flýðu úr Orkneyjum óðul sín fyrir ríki Einars jarls. Flýðu flestir yfir á Katanes til Þorfinns jarls en sumir flýðu úr Orkneyjum til Noregs en sumir til ýmissa landa.

En er Þorfinnur jarl rosknaðist þá gerði hann boð til Einars jarls bróður síns og beiddi af honum ríkis þess er hann þóttist eiga í Orkneyjum en það var þriðjungur eyja. Einar tók því óbrátt að minnka ríki sitt. En er Þorfinnur spurði það þá býr hann lið út af Katanesi og fer út í eyjar.

En er Einar jarl varð þess vís safnar hann liði og ætlar að verja löndin. Brúsi jarl safnar og liði og fer til móts við þá og ber sættarorð í milli þeirra. Var það að sætt með þeim að Þorfinnur skyldi hafa þriðjung landa í Orkneyjum svo sem hann átti að réttu. En Brúsi og Einar lögðu saman sinn hluta. Skyldi Einar hafa einn forræði fyrir þeim en ef misdauði þeirra yrði þá skyldi sá þeirra lönd taka eftir annan er lengur lifði. En sá máldagi þótti þá ekki jafnlegur því að Brúsi átti son er Rögnvaldur hét en Einar var sonlaus. Setti þá Þorfinnur jarl sína menn til að varðveita ríki það er hann átti í Orkneyjum en hann var oftast á Katanesi. Einar jarl var oftast á sumrum í hernaði um Írland og Skotland og Bretland.

Það var eitt sumar er Einar jarl herjaði á Írland að hann barðist í Úlfreksfirði við Konofogor Írakonung svo sem fyrr var ritað að Einar jarl fékk þar ósigur mikinn og mannlát.

Annað sumar eftir fór Eyvindur úrarhorn vestan af Írlandi og ætlaði til Noregs en er veður var hvasst og straumar ófærir snýr Eyvindur þá til Ásmundarvogs og lá þar nokkura hríð veðurfastur.

En er það spurði Einar jarl þá hélt hann þangað liði miklu, tók þar Eyvind og lét drepa en gaf grið flestum mönnum hans og fóru þeir austur til Noregs um haustið og komu á fund Ólafs konungs og sögðu honum frá aftöku Eyvindar.

Konungur svarar fá um og fannst það á að honum þótti það mannskaði mikill og mjög gert í þrá sér og um flest var hann fámæltur það er honum þótti sér í móti skapi.

Þorfinnur jarl sendi Þorkel fóstra út í eyjar að heimta saman skatta sína. Einar jarl kenndi Þorkatli mjög uppreist þá er Þorfinnur hafði haft tilkall út í eyjar.

Fór Þorkell skyndilega úr eyjunum og yfir á Katanes. Hann segir Þorfinni jarli að hann var þess vís orðinn að Einar jarl ætlaði honum dauða ef eigi hefðu frændur hans og vinir honum njósn borið. „Nú mun eg,“ segir hann, „þann eiga á baugi að láta þann verða fund okkarn jarls er um skipti með oss en þann kost annan að fara lengra á brott og þannug er ekki sé hans vald yfir.“

Jarl fýsti þess að Þorkell skyldi fara austur til Noregs á fund Ólafs konungs. „Muntu,“ segir hann, „mikils metinn hvar sem kemur með tignum mönnum en eg veit beggja ykkar skaplyndi, þitt og jarls, að þið munuð skamma stund mundast til.“

Þá bjóst Þorkell og fór um haustið til Noregs og síðan á fund Ólafs konungs og var þar um veturinn með konungi í kærleikum miklum. Hafði hann Þorkel mjög við mál sín. Þótti honum sem var að Þorkell var vitur maður, skörungur mikill. Fannst konungi það í ræðum hans að hann misjafnaði mjög frásögu um jarlana og var vinur mikill Þorfinns en lagði þungt til Einars jarls.

Og snemmendis um vorið sendir konungur skip vestur um haf á fund Þorfinns jarls og orðsending að jarl skyldi koma austur á konungsfund. En jarl lagðist eigi þá ferð undir höfuð því að vináttumál fylgdu orðsending.