Heimskringla/Ólafs saga helga/99

Úr Wikiheimild

Þorfinnur jarl fór austur til Noregs og kom á fund Ólafs konungs og fékk þar góðar viðtökur og dvaldist þar lengi um sumarið. En er hann bjóst vestur gaf Ólafur konungur honum langskip mikið og gott með öllum reiða. Þorkell fóstri réðst þá til ferðar með jarli og gaf jarl honum það skip er hann hafði vestan haft um sumarið. Skildust þeir konungur og jarl með kærleikum miklum.

Þorfinnur jarl kom um haustið til Orkneyja. En er Einar jarl spurði það þá hafði hann fjölmennt og lá á skipum. Brúsi jarl fór þá til fundar við þá báða bræður og bar sætt milli þeirra. Kom enn svo að þeir sættust og bundu það eiðum. Þorkell fóstri skyldi vera í sætt og vináttu við Einar jarl og var það mælt að hvor þeirra skyldi veita öðrum veislu og skyldi jarl fyrri sækja til Þorkels í Sandvík.

En er jarl var þar á veislu þá var veitt hið kappsamlegsta. Var jarl ekki kátur. Þar var mikill skáli og dyr á báðum endum.

Þann dag er jarl skyldi á brott fara þá skyldi Þorkell fara með honum til veislu. Þorkell sendi menn á njósn fram á leiðina er þeir skyldu fara um daginn. En er njósnarmenn komu aftur þá segja þeir Þorkatli að þeir fundu þrennar sátir og vopnaða menn „og hyggjum vér,“ segja þeir, „að svik muni vera.“

En er Þorkell spurði þetta þá frestaði hann búnaðinum og heimti menn sína að sér. Jarl bað hann búast og segir að mál var að ríða. Þorkell segir að hann átti mart að annast. Hann gekk stundum út en stundum inn. Eldar voru á gólfinu. Þá gekk hann inn um aðrar dyr og eftir honum maður er nefndur er Hallvarður. Hann var íslenskur maður og austfirskur. Hann lauk aftur hurðunni. Þorkell gekk innar milli eldsins og þess er jarl sat.

Jarl spurði: „Ertu eigi enn búinn?“

Þorkell svarar: „Nú em eg búinn.“

Þá hjó hann til jarls og í höfuðið. Jarl steyptist á gólfið.

Þá mælti Íslendingur: „Hér sá eg alla versta fangaráðs er þér dragið eigi jarl af eldinum.“

Hann keyrði til spörðu og setti undir hnakkabein jarli og kippti honum upp að pallinum. Þorkell og þeir báðir förunautar gengu út skyndilega aðrar dyr en þeir höfðu inn gengið. Stóðu þar úti menn Þorkels með alvæpni.

En jarlsmenn tóku til hans og var hann þá dauður en öllum féllust hendur til hefndarinnar. Var það og að bráðum bar að og varði engan mann þessa verks af Þorkatli því að þeir hugðu allir að svo mundi vera sem áður var mælt að vinátta væri með jarli og Þorkatli. Voru menn og flestir vopnlausir inni en margir áður vinir Þorkels góðir. Bar það til með auðnu þeirri er Þorkatli var auðið lengra lífs. Þorkell hafði þá lið er hann kom út, engu minna en jarlsmenn. Fór Þorkell þá til skips síns en jarlsmenn í brott.

Þorkell sigldi þann dag þegar í brott og austur í haf og var það eftir veturnætur og kom hann með heilu til Noregs og fór þegar sem skyndilegast á fund Ólafs konungs og fékk þar góðar viðtökur. Lét konungur yfir verki þessu vel. Var Þorkell með honum um veturinn.