Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga kyrra/2

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga kyrra
Höfundur: Snorri Sturluson
2. Frá siðum Ólafs konungs


Það var siður forn í Noregi að konungshásæti var á miðjum langpalli. Var öl um eld borið. En Ólafur konungur lét fyrst gera sitt hásæti á hápalli um þvera stofu. Hann lét og fyrst gera ofnstofur og strá gólf um vetur sem um sumar.

Um daga Ólafs konungs hófust mjög kaupstaðir í Noregi en sumir settust að upphafi. Ólafur konungur setti kaupstað í Björgyn. Gerðist þar brátt mikið setur auðigra manna og tilsiglingar kaupmanna af öðrum löndum. Hann lét reisa þar af grundvelli Kristskirkju, hina miklu steinkirkju, og var að henni lítið gert en hann lét algera trékirkjuna. Ólafur konungur lét setja Miklagildi í Niðarósi og mörg önnur í kaupstöðum en áður voru þar hvirfingsdrykkjur. Þá var Bæjarbót hin mikla hvirfingsklokka í Niðarósi. Hvirfingsbræður létu þar gera Margrétarkirkju, steinkirkju.

Á dögum Ólafs konungs hófust skytningar og leiðsludrykkjur í kaupstöðum. Og þá tóku menn upp sundurgerðir, höfðu drambhosur lerkaðar að beini, sumir spenntu gullhringum um fótleggi sér og þá höfðu menn dragkyrtla, lás að síðu, ermar fimm alna langar og svo þröngvar að draga skyldi við handtugli og lerka allt að öxl upp, hávir skúar og allir silkisaumaðir en sumir gulllagðir. Mörg önnur sundurgerð var þá.