Heimskringla/Ólafs saga kyrra/6

Úr Wikiheimild

Ólafur konungur lét gera steinmusteri í Niðarósi og setti í þeim stað sem fyrst hafði verið jarðað lík Ólafs konungs og var þar yfir sett altarið sem gröftur konungs hafði verið. Þar var vígð Kristskirkja. Var þá og þannug flutt skrín Ólafs konungs og sett þar yfir altari. Urðu þar þá margar jartegnir.

En annað sumar eftir að jafnlengd þess er kirkjan hafði vígð verið þá var þar allfjölmennt. Það var Ólafsvökuaftan að blindur maður fékk þar sýn sína. En sjálfan messudaginn þá er skrínið og helgir dómar voru út bornir, skrínið var sett niður í kirkjugarðinn svo sem siðvenja var til, þá fékk sá maður mál sitt er lengi áður hafði mállaus verið og söng þá lof guði og hinum helga Ólafi konungi með mjúku tungubragði.

Kona var hinn þriðji maður er þannug hafði sótt af Svíþjóðu austan og hafði í þeirri för þolað mikla nauð fyrir sjónleysis sökum en þó treystist hún miskunn guðs og kom þar farandi að þeirri hátíð. Hún var leidd sjónlaus í musterið að messu um daginn en fyrr en tíðum var lokið sá hún báðum augum og var þá skyggn og bjarteyg en áður hafði hún verið blind fjórtán vetur. Fór hún þaðan með háleitum fagnaði.

Sá atburður gerðist í Niðarósi að skrín Ólafs konungs var borið um stræti að höfugt varð skrínið svo að eigi fengu menn borið fram úr stað. En síðan var skrínið niður sett og brotið upp strætið og leitað hvað þar var undir og fannst þar barnslík er myrt hafði verið og fólgið þar. Var það þá á brott borið en bætt aftur strætið svo sem áður hafði verið en borið skrín að vanda.