Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/10
Haraldur konungur Gormsson réð þá fyrir Danmörku. Honum líkaði stórilla það er Hákon konungur hafði herjað í land hans og fóru þau orð um að Danakonungur mundi hefnast vilja en það varð þó ekki svo bráðlega.
En er þetta spurði Gunnhildur og synir hennar, að ófriður var millum Danmerkur og Noregs, þá byrja þau ferð sína vestan. Þau giftu Ragnhildi dóttur Eiríks Arnfinni syni Þorfinns hausakljúfs. Settist þá enn Þorfinnur jarl að Orkneyjum en Eiríkssynir fóru í brott. Gamli Eiríksson var þá nokkuru elstur og var hann þó eigi roskinn maður.
En er Gunnhildur kom til Danmerkur með sonu sína þá fór hún á fund Haralds konungs og fékk þar góðar viðtekjur. Fékk Haraldur konungur þeim veislur í ríki sínu svo miklar að þau fengu vel haldið sig og menn sína. En hann tók til fósturs Harald Eiríksson og knésetti hann. Fæddist hann þar upp í hirð Danakonungs. Sumir Eiríkssynir fóru í hernað þegar er þeir höfðu aldur til og öfluðu sér fjár, herjuðu um Austurveg. Þeir voru snemma menn fríðir og fyrr rosknir að afli og atgervi en að vetratali.
Þess getur Glúmur Geirason í Gráfeldardrápu:
- Austrlöndum fórst undir
- allvaldr, sá er gaf skaldum,
- hann fékk gagn að gunni,
- gunnhörga slög mörgum.
- Slíðrtungur lét syngva
- sverðleiks reginn. Ferðir
- sendi gramr að grundu
- gullvarpaðar snarpar.
Eiríkssynir snerust þá og með her sinn norður í Víkina og herjuðu þar en Tryggvi konungur hafði her úti og hélt til móts við þá og áttu þeir orustur margar og höfðu ýmsir sigur. Herjuðu Eiríkssynir stundum í Víkina en Tryggvi stundum um Halland og Sjáland.