Fara í innihald

Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/9

Úr Wikiheimild

Það haust kom Tryggvi konungur Ólafsson úr vesturvíking. Hafði hann þá áður herjað um Írland og Skotland.

Um vorið fór Hákon konungur norður í land og setti Tryggva konung bróðurson sinn yfir Víkina að verja fyrir ófriði og eignast slíkt af þeim löndum í Danmörku er Hákon konungur hafði hið fyrra sumarið skattgilt.

Svo segir Guttormur sindri:

Og sóknhattar setti
svellrjóðr að því fljóði
Ónars, eiki grónu,
austr geðbæti hraustan,
þann er áðr frá Írum
íðvandr um kom skíðum
salbrigðandi Sveigðis
svanvangs liði þangað.