Fara í innihald

Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/8

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Hákonar saga Aðalsteinsfóstra
Höfundur: Snorri Sturluson
8. Hernaður Hákonar konungs í Danmörk

Eftir það herjaði Hákon konungur víða um Selund og rændi mannfólkið en drap sumt en sumt hertók hann, tók gjöld stór af sumum, fékk þá enga mótstöðu.

Svo segir Guttormur sindri:

Selund náði þá síðan
sóknheggr und sig leggja,
vals og Vinda frelsi
við Skáneyjarsíðu.

Síðan fór Hákon konungur austur fyrir Skáneyjarsíðu og herjaði allt, tók gjöld og skatta af landinu og drap alla víkinga hvar sem hann fann, bæði Dani og Vindur. Fór hann allt austur fyrir Gautland og herjaði þar og fékk þar stór gjöld af landinu.

Svo segir Guttormur sindri:

Skattgilda vann skyldir
skautjalfaðar Gauta.
Gullskýflir vann gjöflastr
geirveðr í för þeiri.

Hákon konungur fór aftur um haustið með lið sitt og hafði fengið ógrynni fjár. Hann sat um veturinn í Víkinni við áhlaupum ef Danir og Gautar gerðu þar.