Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/14

Úr Wikiheimild

Sigurður Hlaðajarl var hinn mesti blótmaður og svo var Hákon faðir hans. Hélt Sigurður jarl upp blótveislum öllum af hendi konungs þar í Þrændalögum.

Það var forn siður þá er blót skyldi vera að allir bændur skyldu þar koma sem hof var og flytja þannug föng sín, þau er þeir skyldu hafa meðan veislan stóð. Að veislu þeirri skyldu allir menn öl eiga. Þar var og drepinn alls konar smali og svo hross en blóð það allt er þar kom af, þá var kallað hlaut og hlautbollar það er blóð það stóð í, og hlautteinar, það var svo gert sem stökklar, með því skyldi rjóða stallana öllu saman og svo veggi hofsins utan og innan og svo stökkva á mennina en slátur skyldi sjóða til mannfagnaðar. Eldar skyldu vera á miðju gólfi í hofinu og þar katlar yfir. Skyldi full um eld bera en sá er gerði veisluna og höfðingi var, þá skyldi hann signa fullið og allan blótmatinn. Skyldi fyrst Óðins full, skyldi það drekka til sigurs og ríkis konungi sínum, en síðan Njarðar full og Freys full til árs og friðar. Þá var mörgum mönnum títt að drekka þar næst bragafull. Menn drukku og full frænda sinna, þeirra er heygðir höfðu verið, og voru það minni kölluð.

Sigurður jarl var manna örvastur. Hann gerði það verk er frægt var mjög að hann gerði mikla blótveislu á Hlöðum og hélt einn upp öllum kostnaði.

Þess getur Kormákur Ögmundarson í Sigurðardrápu:

Hafit maðr ask né eskis
afspring með sér þingað
fésæranda að færa
fets. Véltu goð Þjassa.
Hver muni vés við valdi
vægja kind um bægjast,
því að fúr-Rögni fagnar
fens. Vó gramr til menja.