Fara í innihald

Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/15

Úr Wikiheimild

Hákon konungur kom til Frostaþings og var þar komið allfjölmennt af bóndum. En er þing var sett þá talaði Hákon konungur, hóf þar fyrst að það væri boð hans og bæn við bændur og búþegna, ríka og óríka, og þar með við alla alþýðu, unga menn og gamla, sælan og vesælan, konur sem karla, að allir menn skyldu kristnast láta og trúa á einn guð, Krist Maríuson, en hafna blótum öllum og heiðnum goðum, halda heilagt hinn sjöunda hvern dag við vinnum öllum, fasta og hinn sjöunda hvern dag.

En þegar er konungur hafði þetta upp borið fyrir alþýðu þá var þegar mikill kurr. Kurruðu bændur um það er konungur vildi vinnur taka af þeim og svo að við það mátti landið eigi byggja. En verkalýður og þrælar kölluðu það að þeir mættu eigi vinna ef þeir skyldu eigi mat hafa, sögðu og að það var skaplöstur Hákonar konungs og föður hans og þeirra frænda að þeir voru illir af mat, svo þótt þeir væru mildir af gulli.

Ásbjörn af Meðalhúsum úr Gaulardal stóð upp og svaraði erindi konungs og mælti: „Það hugðum vér bændur Hákon konungur,“ segir hann, „að þá er þú hafðir hið fyrsta þing haft hér í Þrándheimi og höfðum þig til konungs tekinn og þegið af þér óðul vor að vér hefðum þá höndum himin tekið, en nú vitum vér eigi hvort heldur er, að vér munum frelsi þegið hafa eða muntu nú láta þrælka oss af nýju með undarlegum hætti, að vér munum hafna átrúnaði þeim er feður vorir hafa haft fyrir oss og allt foreldri, fyrst um brunaöld en nú um haugsöld, og hafa þeir verið miklu göfgari en vér og hefir oss þó dugað þessi átrúnaður. Vér höfum lagt til yðar svo mikla ástúð að vér höfum þig ráða látið með oss öllum lögum og landsrétt. Nú er það vilji vor og samþykki bóndanna að halda þau lög sem þú settir oss hér á Frostaþingi og vér játuðum þér. Viljum vér allir þér fylgja og þig til konungs halda meðan einnhver er lífs bóndanna, þeirra er hér eru nú á þinginu, ef þú konungur vilt nokkuð hóf við hafa að beiða oss þess eins er vér megum veita þér og oss sé eigi ógeranda. En ef þér viljið þetta mál taka með svo mikilli frekju að deila afli og ofríki við oss þá höfum vér bændur gert ráð vort að skiljast allir við þig og taka oss annan höfðingja, þann er oss haldi til þess að vér megum í frelsi hafa þann átrúnað sem vér viljum. Nú skaltu konungur kjósa um kosti þessa áður þing sé slitið.“

Að erindi þessu gerðu bændur róm mikinn og segja að þeir vilja svo vera láta.