Fara í innihald

Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/2

Úr Wikiheimild

Hákon konungur fór öndurðan vetur á Upplönd, stefndi þar þing og dreif allt fólk á hans fund, það er komast mátti. Var hann þá til konungs tekinn á öllum þingum. Fór hann þá austur til Víkur. Þar komu til hans Tryggvi og Guðröður bræðrasynir hans og margir aðrir er upp töldu harma sína þá er hlotið höfðu af Eiríki bróður hans. Eiríks óvinsæld óx æ því meir sem allir menn gerðu sér kærra við Hákon konung og heldur höfðu sér traust að mæla sem þótti.

Hákon konungur gaf konungsnafn Tryggva og Guðröði og ríki það sem Haraldur konungur hafði gefið feðrum þeirra. Tryggva gaf hann Ranríki og Vingulmörk en Guðröði Vestfold. En fyrir því að þeir voru ungir og bernskir þá setti hann til göfga menn og vitra að ráða landi með þeim. Gaf hann þeim land með þeim skildaga sem fyrr hafði verið, að þeir skyldu hafa helming skylda og skatta við hann. Fór Hákon konungur norður til Þrándheims er voraði hið efra um Upplönd.