Fara í innihald

Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/3

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Hákonar saga Aðalsteinsfóstra
Höfundur: Snorri Sturluson
3. Ferð Eiríks úr landi

Hákon konungur dró saman her mikinn í Þrándheimi er voraði og réð til skipa. Víkverjar höfðu og her mikinn úti og ætluðu til móts við Hákon. Eiríkur bauð og liði út um mitt land og varð honum illt til liðs því að ríkismenn margir skutust honum og fóru til Hákonar.

En er hann sá engi efni til mótstöðu í móti her Hákonar þá sigldi hann vestur um haf með því liði er honum vildi fylgja. Fór hann fyrst til Orkneyja og hafði þaðan með sér lið mikið. Þá sigldi hann suður til Englands og herjaði um Skotland hvar sem hann kom við land. Hann herjaði og allt norður um England.

Aðalsteinn Englakonungur sendi orð Eiríki og bauð honum að taka af sér ríki í Englandi, sagði svo að Haraldur konungur faðir hans var mikill vinur Aðalsteins konungs svo að hann vill það virða við son hans. Fóru þá menn í milli konunganna og semst það með einkamálum að Eiríkur konungur tók Norðimbraland að halda af Aðalsteini konungi og verja þar land fyrir Dönum og öðrum víkingum. Eiríkur skyldi láta skírast og kona hans og börn þeirra og allt lið hans það er honum hafði fylgt þangað. Tók Eiríkur þenna kost. Var hann þá skírður og tók rétta trú. Norðimbraland er kallað fimmtungur Englands. Hann hafði aðsetu í Jórvík þar sem menn segja að fyrr hafi setið Loðbrókarsynir.

Norðimbraland var mest byggt Norðmönnum síðan er Loðbrókarsynir unnu landið. Herjuðu Danir og Norðmenn oftlega þangað síðan er vald landsins hafði undan þeim gengið. Mörg heiti landsins eru þar gefin á norræna tungu, Grímsbær og Hauksfljót og mörg önnur.