Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/29

Úr Wikiheimild

Haraldur Eiríksson var þá höfðingi yfir þeim bræðrum eftir fall Gamla. Þeir bræður höfðu þar her mikinn haft sunnan af Danmörku. Þar voru þá í liði með þeim móðurbræður þeirra, Eyvindur skreyja og Álfur askmaður. Þeir voru sterkir menn og hraustir og hinir mestu manndrápamenn. Eiríkssynir héldu skipum sínum til eyjarinnar og gengu á land upp og fylktu. Og er svo sagt að eigi væri minni liðsmunur en sex menn mundu vera um einn, að Eiríkssynir mundu fjölmennari.