Fara í innihald

Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/32

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Hákonar saga Aðalsteinsfóstra
Höfundur: Snorri Sturluson
32. Dauði Hákonar konungs

Hákon konungur gekk út á skeið sína, lét þá binda sár sitt en þar rann blóð svo mjög að eigi fékk stöðvað. Og er á leið dag þá ómætti konung. Sagði hann þá að hann vill fara norður á Alreksstaði til bús síns.

En er þeir komu norður að Hákonarhellu þá lögðu þeir þar að. Var þá konungur nær lífláti. Kallaði hann þá á vini sína og segir þeim skipan þá er hann vill hafa á um ríkið. Hann átti dóttur eina barna er Þóra hét en engan son. Hann bað þá senda þau orð Eiríkssonum að þeir skyldu konungar vera yfir landi en hann bað af þeim virkta vinum sínum og frændum.

„En þótt mér verði lífs auðið,“ segir hann, „þá mun eg af landi fara og til kristinna manna og bæta það er eg hefi brotið við guð en ef eg dey hér í heiðni þá veitið mér hér gröft þann er yður sýnist.“

Og litlu síðar andaðist Hákon konungur þar á hellunni sem hann hafði fæddur verið.

Hákon konungur var svo mjög harmaður að bæði vinir og óvinir grétu dauða hans og kölluðu að eigi mundi jafngóður konungur koma síðan í Noreg. Vinir hans fluttu lík hans norður á Sæheim á Norður-Hörðaland og urpu þar haug mikinn og lögðu þar í konung með alvæpni sitt og hinn besta búnað sinn en ekki fé annað. Mæltu þeir svo fyrir grefti hans sem heiðinna manna siður var til, vísuðu honum til Valhallar.

Eyvindur skáldaspillir orti kvæði eitt um fall Hákonar konungs og svo það hversu honum var fagnað. Það eru kölluð Hákonarmál og er þetta upphaf:

Göndul og Skögul
sendi Gautatýr
að kjósa um konunga,
hver Yngva ættar
skyldi með Óðni fara
og í Valhöllu vera.
Bróður fundu þær Bjarnar
í brynju fara,
konung hinn kostsama,
kominn und gunnfána.
Drúptu dólgráar
en darraðr hristist.
upp var þá hildr um hafið.
Hét á Háleygi
sems á Hólmrygi
jarla einbani,
fór til orustu.
Gott hafði hinn göfgi
gengi Norðmanna
ægir Eydana,
stóð und árhjálmi.
Hrauðst úr hervoðum,
hratt á völl brynju
vísi verðungar,
áðr til vígs tæki.
Lék við ljóðmögu,
skyldi land verja
gramr hinn glaðværi,
stóð und gullhjálmi.
Svo beit þá sverð
úr siklings hendi
voðir Váfaðar
sem í vatn brygði.
Brökuðu broddar.
Brotnuðu skildir.
Glumruðu glymringar
í gotna hausum.
Tröddust törgur
fyr Týs og bauga
hjalta harðfótum
hausar Norðmanna.
Róma varð í eyju.
Ruðu konungar
skírar skjaldborgir
í skatna blóði.
Brunnu beneldar
í blóðgum undum.
Lutu langbarðar
að lýða fjörvi.
Svarraði sárgymir
á sverða nesi.
Féll flóð fleina
í fjöru Storðar.
Blendust við roðnar
und randar himni.
Sköglar veðr léku
við skýs um bauga.
Umdu oddláar
í Óðins veðri.
Hneig margt manna
fyr mækis straumi.
Sátu þá döglingar
með sverð um togin,
með skarða skjöldu
og skotnar brynjur.
Vara sá her
í hugum og átti
til Valhallar vega.
Göndul það mælti,
studdist geirskafti:
„Vex nú gengi goða,
er Hákoni hafa
með her mikinn
heim bönd um boðið.“
Vísi það heyrði
hvað valkyrjur mæltu
mærar af mars baki.
Hyggilega létu
og hjálmaðar sátu
og höfðust hlífar fyr.
„Hví þú svo gunni,“ kvað Hákon,
„skiptir, Geir-Skögul?
Vorum þó verðir gagns frá goðum.“
„Vér því völdum,“ kvað Skögul,
„er þú velli hélst
en þínir fjendr flugu.“
„Ríða við skulum,“
kvað hin ríka Skögul,
„græna heima goða
Óðni að segja,
að nú mun allvaldr koma
á hann sjálfan að sjá.“
„Hermóðr og Bragi,“
kvað Hroptatýr,
„gangið í gegn grami,
því að konungr fer,
sá er kappi þykir,
til hallar hinig.“
Ræsir það mælti,
var frá rómu kominn,
stóð allr í dreyra drifinn:
„Illúðigr mjög
þykir oss Óðinn vera.
Sjáum vér hans um hugi.“
„Einherja grið
skalt þú allra hafa.
Þigg þú að ásum öl.
Jarla bági,
þú átt inni hér
átta bræðr,“ kvað Bragi.
„Gerðar vorar,“
kvað hinn góði konungr,
„viljum vér sjálfir hafa.
Hjálm og brynju
skal hirða vel.
Gott er til gers að taka.“
Þá það kynntist,
hve sá konungr hafði
vel um þyrmt véum,
er Hákon báðu
heilan koma
ráð öll og regin.
Góðu dægri
verðr sá gramr um borinn,
er sér getr slíkan sefa.
Hans aldar
mun æ vera
að góðu getið.
Mun óbundinn
á ýta sjöt
Fenrisúlfr fara,
áðr jafngóðr
á auða tröð
konungmaðr komi.
Deyr fé.
Deyja frændr.
Eyðist land og láð.
Síst Hákon fór
með heiðin goð,
mörg er þjóð of þéuð.