Heimskringla/Hákonar saga Aðalsteinsfóstra/31
Eyvindur skreyja kallaði þá hátt: „Leynist Norðmanna konungur nú eða hefir hann flúið eða hvar er nú gullhjálmurinn?“
Gekk Eyvindur þá fram og Álfur bróðir hans með honum og hjuggu til beggja handa og létu sem óðir eða galnir væru.
Hákon konungur mælti hátt til Eyvindar: „Haltu svo fram stefnunni ef þú vilt finna Norðmanna konung.“
Svo segir Eyvindur skáldaspillir:
- Baðat valgrindar vinda
- veðrheyjandi Skreyju,
- gumnum hollr né gulli,
- Gefnar sinni stefnu,
- „ef sökkspenni svinnan
- sigrminnigr vilt finna,
- fram haltu, njótr, að nýtum
- Norðmanna gram, hranna.“
Var þá og skammt að bíða að Eyvindur kom þar, reiddi upp sverðið og hjó til konungs. Þórálfur skaut við honum skildinum og stakraði Eyvindur við en konungur tók sverðið Kvernbít tveim höndum og hjó til Eyvindar ofan í hjálminn, klauf hjálminn og höfuðið allt í herðar niður. Þá drap Þórálfur Álf askmann.
Svo segir Eyvindur skáldaspillir:
- Veit eg, að beit hinn bitri
- byggving meðaldyggvan
- búlka skíðs úr báðum
- benvöndr konungs höndum.
- Ófælinn klauf Ála
- éldraugr skarar hauga
- gullhjöltuðum galtar,
- grandaðr Dana, brandi.
Eftir fall þeirra bræðra gekk Hákon konungur svo hart fram að þá hrökk allt fólk fyrir honum. Slær þá í lið Eiríkssona felmt og flótta því næst en Hákon konungur var í öndverðri sinni fylking og fylgdi fast flóttamönnum og hjó títt og hart. Þá flaug ör ein er fleinn er kallaður og kom í hönd Hákoni konungi upp í músina fyrir neðan öxl.
Og er það margra manna sögn að skósveinn Gunnhildar sá er Kispingur er nefndur hljóp fram í þysinum og kallaði: „Gefið rúm konungsbananum,“ og skaut fleininum til Hákonar konungs.
En sumir segja að engi viti hver skaut. Má það vel og vera því að örvar og spjót og alls konar skotvopn flugu svo þykkt sem drífa.
Fjöldi manns féll af Eiríkssonum, bæði á vígvellinum og á leið til skipanna og svo í fjörunni og fjöldi hljóp á kaf. Mart komst á skipin, allir Eiríkssynir, og reru þegar undan en Hákonar menn eftir þeim.
Svo segir Þórður Sjáreksson:
- Varði varga myrðir
- vítt, svo skal frið slíta,
- jöfur vildu þann eldast,
- öndvert fólk, að löndum.
- Starf hófst upp þá er arfi,
- ótta vanr á flótta,
- gulls en gramr var fallinn,
- Gunnhildar kom sunnan.
- Þrótt, var sýnt þá er settust
- sinn róðrs við þröm stinnan,
- maðr lét önd og annar
- ófár, búendr sárir.
- Afreks veit það er jöfri
- allríkr í styr slíkum
- göndlar Njörðr, sá er gerði,
- gekk næst, hugins drekku.