Heimskringla/Hákonar saga herðibreiðs/18

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

En er þeir Jón og hans félagar höfðu rofið fylking Inga konungs þá flýðu þeir og margir er þar höfðu næst staðið og skildist þá og riðlaðist fylkingin en þeir Hákon sóttu þá fast. Þá var og komið að dagan. Þá var sótt að merki Inga konungs. Í þeirri hríð féll Ingi konungur en Ormur bróðir hans hélt þá upp orustu. Flýði þá mart fólkið upp í býinn. Ormur fór tvisvar í býinn síðan er konungur var fallinn og eggjaði liðið og hvorttveggja sinn gekk hann út á ísinn og hélt upp orustu. Þá sóttu þeir Hákon þann fylkingararminn er Símon skálpur var fyrir og í þeirri atgöngu féll af Inga liði Guðbrandur Skafhöggsson mágur konungs en Símon skálpur og Hallvarður hikri gengust á og börðust með sveitir sínar og ókust út fyrir Þrælaborg. Í þeirri hríð féllu þeir báðir Símon og Hallvarður. Ormur konungsbróðir fékk allgott orð og flýði þó að lyktum.

Áður um veturinn hafði Ormur fastnað sér Rögnu, dóttur Nikuláss mása, er átt hafði Eysteinn konungur Haraldsson og skyldi þá ganga að brullaupinu sunnudaginn eftir. Blasíusmessa var á frjádegi.

Ormur flýði á Svíþjóð til Magnúss bróður síns er þá var þar konungur en Rögnvaldur var þar jarl bróðir þeirra. Þeir voru synir Ingiríðar og Heinreks halta. Hann var sonur Sveins Sveinssonar Danakonungs.

Kristín konungsdóttir bjó um lík Inga konungs og var hann lagður í steinvegginn í Hallvarðskirkju utar frá kór hinum syðra megin. Þá hafði hann verið konungur hálfan þriðja tug vetra. Í þeirri orustu féll mart manna af hvorumtveggjum en þó miklu fleira af Inga liði. Árni Fríreksson féll af Inga liði. En þeir Hákonar menn tóku upp brullaupsveisluna og stórmikið hlutskipti annað.