Heimskringla/Hákonar saga herðibreiðs/17

Úr Wikiheimild

Ingi konungur með sinn her gekk þá út á ísinn og setti fylking sína fyrir býinn. Var Símon skálpur í þann arminn er út vissi til Þrælaborgar en í þann arminn er inn var fyrir Nunnusetur var Guðröður Suðureyjakonungur, sonur Ólafs klínings, og Jón sonur Sveins Bergþórssonar bukks.

En er þeir Hákon komu að fylking Inga konungs þá æptu hvorirtveggju heróp. Þeir Guðröður og Jón báknuðu til þeirra Hákonar og létu þá vita hvar þeir voru fyrir. Síðan sneru Hákonar menn þar að en þeir Guðröður flýðu þegar og mundi það vera nær fimmtán hundruð manna. En Jón og mikil sveit með honum hljópu í lið Hákonar og barðist með þeim. Þetta var sagt Inga konungi.

Hann svarar svo: „Mikið hefir skilt vini mína. Aldrei mundi Gregoríus svo fara meðan hann lifði.“

Þá mæltu menn, báðu konunginn að hesti skyldi skjóta undir hann og riði hann úr orustu og upp á Raumaríki: „Muntu þar fá gnógt lið þegar í dag.“

„Engi hugur er mér á því,“ segir konungur. „Oft hefi eg heyrt yður það mæla og þykir mér satt, að lítið lagðist fyrir Eystein konung bróður minn síðan er hann lagðist á flótta og var hann vel að sér ger um alla hluti þá er konung fríða. Nú kann eg það sjá við vanheilindi mitt hversu lítið fyrir mig mun leggjast ef eg tek það til, er honum skyldi svo mjög vefjast, jafnmikið sem atferð okkra skildi og heilsu og allt eljan. Eg var þá á annan vetur er eg var til konungs tekinn í Noregi en nú em eg vel hálfþrítugur. Eg þykist vandræði og ábyrgðir hafa meir haft í konungdóminum heldur en skemmtan og indæli. Eg hefi margar orustur áttar, stundum með meira liði, stundum minna. Hefir sú mín gæfa mest verið að eg hefi aldrei á flótta komið. Ráði guð lífi mínu hversu langt vera skal en aldrei mun eg á flótta leggjast.“