Fara í innihald

Heimskringla/Hákonar saga herðibreiðs/16

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Hákonar saga herðibreiðs
Höfundur: Snorri Sturluson
16. Frá Inga konungi


Blasíusmessu að kveldi kom njósn Inga konungi að Hákonar væri þá von til býjarins. Þá lét Ingi konungur blása liðinu upp úr bænum og var þar þá skorað nær fjórum tigum hundraða manna. Konungur lét vera fylkingina langa og eigi meir en fimm menn á þykktina.

Þá mæltu menn við konung að hann skyldi eigi vera í orustu, lést þykja mikil ábyrgð á honum „og veri Ormur bróðir þinn höfðingi fyrir liðinu.“

Konungur segir: „Það ætla eg ef Gregoríus lifði og væri hann hér nú en eg væri fallinn og skyldi mín hefna að hann mundi eigi liggja í fylgsnum og mundi vera í orustu sjálfur. En þótt eg sé verr atskjótaður fyrir vanheilsu sökum en hann var, þá skal eg eigi verr viljaður við hann og er engi von að eg muni eigi í orustu vera.“

Svo segja menn að Gunnhildur er Símon hafði átt, fóstra Hákonar, léti sitja úti til sigurs Hákoni en það vitraði að þeir skyldu berjast við Inga um nótt en aldregi um dag, kvað þá hlýða mundu. En Þórdís skeggja er sú kona nefnd er sagt er að úti sat en eigi veit eg sann á því.

Símon skálpur, hann hafði gengið í býinn og lagst niður að sofa og vaknaði við herópið. En er á leið nóttina kom njósn til Inga konungs. Var honum sagt að þeir Hákon fóru þá utan á ísinn en ís lá allt frá býnum út til Höfuðeyjar.