Heimskringla/Hákonar saga herðibreiðs/15

Úr Wikiheimild

Ármenn tveir fóru með tíðindin að segja Inga konungi inn í Ósló. En er þeir komu þar þá heimtu þeir konung á mál. Hann spurði hvað þeir segðu tíðinda.

„Fall Gregoríusar Dagssonar,“ sögðu þeir.

„Hví bar svo illa að?“ sagði konungur.

Þeir sögðu honum.

Konungur svarar: „Þeir réðu þar þá er verr kunnu.“

Það er svo sagt að hann kunni því svo illa að hann grét sem barn.

En er það gekk af honum mælti hann þetta: „Eg vildi fara til fundar við Gregoríus þegar eg spurði dráp Halldórs því að eg þóttist vita að Gregoríus mundi eigi sitja svo lengi að hann mundi eigi til hefndar ráða. En þetta fólk lét sem ekki væri jafnskylt sem jóladrykkja sjá og eigi mætti henni bregða. Því að eg veit víst, ef eg væri þar, að annað tveggja mundi, að meira ráði fram farið eða við Gregoríus mundum fara til einnar gistingar báðir ella. En þar er sá maður farinn er mér hefir bestur verið og mest hefir landinu haldið í hendur mér. En það hugði eg til þessa að skammt mundi milli okkar verða. Nú skal eg einn við leggja að fara til fundar við þá Hákon og skal annað tveggja, að eg skal hafa bana eða stíga yfir þá Hákon ella. En eigi er slíks manns að hefndra sem Gregoríus var þótt þeir komi allir fyrir.“

Maður svarar, lét hann lítt mundu þurfa að leita þeirra, kvað þá þannug ætla til fundar hans.

Kristín var þar í Ósló, dóttir Sigurðar konungs, bræðrunga Inga konungs. Konungur spurði að hún ætlaði úr bænum brott og sendi henni orð og spurði hví hún vildi úr bænum. En henni lést agasamlegt þykja og kvað eigi kvinna vist þar vera.

Konungur bað að hún skyldi eigi í brott fara „með því að vér höfum gagn sem eg ætla þá muntu hér vel haldin en með því að eg falli þá munu vinir mínir eigi ná að búa um lík mitt en þó skaltu biðja að þér sé lofað að búa um líkið. Máttu mér svo helst launa það er eg hefi verið vel við þig.“