Heimskringla/Hákonar saga herðibreiðs/14

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Gregoríus spurði þessi tíðindi og þótti honum mikið að. Hann frétti vandlega að hvar þeir væru. Gregoríus fór úr Konungahellu ofarla jólanna með miklu liði og komu þeir til Foss hinn þrettánda dag jóla. Hann var þar um nóttina og hafði þar óttusöng affaradag jólanna og var honum lesið guðspjall eftir. Það var laugardag. Og er þeir Gregoríus sáu lið Hákonar þá sýndist þeim lið þeirra Hákonar miklu minna en sitt lið.

Á ein var í milli þeirra er þeir hittust. Hún heitir Befja. Ís var illur á ánni því að flóð gekk undir ísinn utan. Þeir Hákon höfðu höggnar vakar á ánni og mokað yfir síðan svo að ekki mátti til sjá.

Þá er Gregoríus kom að ánni mælti hann, lést illur sýnast ísinn, kvað þeim það ráð að fara til brúar er litlu ofar var á ánni. Bóndaliðið sagði og kváðust eigi vita hví gegndi er hann skyldi eigi þora að sækja að þeim um ísinn, eigi meira lið en þeir höfðu fyrir, létu ís fullgóðan og kvaðst horfinalda þykja.

Gregoríus svarar, kvað sjaldan hafa þess þurft að frýja sér allmjög áræðis og kvað eigi enn það skyldu, bað þá fylgja vel og standa eigi á landi ef hann gengur á ísinn og bað þeirra ráð vera að ganga á ís vondan en hann lést ófús. „En þeygi vil eg sitja yður frýju,“ segir hann og bað bera merki sitt fram.

Gekk hann þá út á ísinn. En þegar er bóndaliðið fann að ísinn var vondur þá hvarf liðið aftur. Gregoríus lá í ísnum og eigi mjög. Hann bað menn varast við en eigi gekk fleira eftir honum en nær tuttugu menn en annað lið hvarf aftur allt. Maður skaut að honum ör úr flokki Hákonar og laust undir kverk honum. Gregoríus féll þar og tuttugu menn með honum og er þar nú lokið ævi hans.

En það var almæli að hann hafi verið mestur höfðingi lendra manna í Noregi í þeirra manna minnum er þá voru uppi og best verið við oss Íslendinga síðan er Eysteinn konungur andaðist hinn eldri. Lík Gregoríusar var fært á Höfund upp og grafið í Gimsey að nunnusetri því er þar er. Þar var þá Baugeið abbadís, systir Gregoríusar.