Heimskringla/Hákonar saga herðibreiðs/13

Úr Wikiheimild

Gregoríus spurði til þeirra Hákonar litlu síðar þar sem heita Saurbýir. Það er uppi við markirnar. Hann fór þangað og kom um nótt og hugði að þeir Hákon og Sigurður mundu vera á hinum meira býnum og lögðu þar eld í hús. Þeir Hákon voru á hinum minna bænum. Lögðu þeir til þar er þeir sáu eldinn og vildu duga hinum. Þar féll Munán, sonur Ála óskeynds, bróðir Sigurðar konungs, föður Hákonar. Þeir Gregoríus drápu hann þá er hann vildi duga þeim er inni voru brenndir. Þeir gengu út og var þar mart manna drepið.

Ásbjörn jalda komst af bænum, hann var víkingur hinn mesti, og var sár orðinn mjög. En bóndi einn hitti hann og bað Ásbjörn að bóndi skyldi hann láta undan ganga og lést honum mundu gefa fé til. Bóndi lést það mundu gera er hann var fúsari til, lést oft hafa gengið hræddur fyrir honum og hjó hann banahögg.

Þeir Hákon og Sigurður komust undan en mart var drepið lið þeirra.

Síðan fór Gregoríus austur til Konungahellu.

Litlu síðar fóru þeir Hákon og Sigurður til bús Halldórs Brynjólfssonar á Vettaland og lögðu eld í húsin og brenndu. Halldór gekk út og var höggvinn þegar og húskarlar hans með honum. Voru þeir drepnir nær tuttugu menn alls. Sigríður kona hans, systir Gregoríusar, hana létu þeir ganga til skógar í brott í náttserk einum. Þar tóku þeir Ámunda son Gyrðar Ámundasonar og Gyríðar Dagsdóttur, systurson Gregoríusar, og höfðu með sér. Hann var þá fimm vetra.