Heimskringla/Hákonar saga herðibreiðs/2

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Eftir um sumarið komu þeir Hákon ofan af Gautlandi og fóru til Konungahellu og höfðu allmikið lið og frítt. Gregoríus var þar í býnum og stefndi þing fjölmennt við bændur og býjarmenn og krafði sér liðs. Honum þóttu menn lítt ræma og lést hann illa trúa þeim. Hann fór í brott tveim skipum og inn í Víkina og var allóglaður. Hann ætlaði til fundar við Inga konung. Hann hafði spurt að Ingi konungur fór við her mikinn norðan um Víkina.

En er Gregoríus var skammt norður kominn þá mætti hann þeim Símoni skálp og Halldóri Brynjólfssyni og Gyrði Ámundasyni fóstbróður Inga konungs. Gregoríus varð þeim feginn mjög. Hann hvarf þá aftur og þeir allir samt og höfðu ellefu skip. En er þeir reru upp til Konungahellu þá höfðu þeir Hákon þing fyrir utan býinn og sáu för þeirra.

Þá mælti Sigurður af Reyri: „Nú er Gregoríus feigur er hann fer í hendur oss með fá liði.“

Gregoríus lagði að landi gagnvart býnum og vildi bíða Inga konungs því að hans var von en hann kom eigi. Hákon konungur bjóst við í býnum og lét Þorljót skaufuskalla vera höfðingja í liði því er var á kaupskipum þeim er flutu fyrir bænum. Hann var víkingur og ránsmaður. En Hákon og Sigurður og allur herinn var í býnum og fylktu á bryggjunum. Allir menn höfðu þar gengið undir Hákon.