Heimskringla/Hákonar saga herðibreiðs/20

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Sá atburður varð á Stiklastöðum í orustu, sem fyrr var ritað, að Ólafur konungur kastaði frá sér sverðinu Hneiti þá er hann fékk sár. En einnhver maður, sænskur að ætt, hafði brotið sverð sitt og tók sá upp sverðið Hneiti og vó með því. En sá maður komst brott úr bardaga og fór með öðrum flóttamönnum. Kom hann fram í Svíþjóð og fór heim til bús síns. Hafði hann sverð það um alla sína ævi en síðan hans sonur og tók hver eftir annan þeirra frænda og fylgdi það jafnan eign sverðsins að hver sagði öðrum nafn sverðsins og svo það hvaðan það var komið.

En það var miklu síðar á dögum Kirjalax Miklagarðskeisara að þar voru í Garði stórar sveitir Væringja. Þá bar svo að á einu sumri, þá er keisarinn var í herferð nokkurri, og lágu þeir í herbúðum. Væringjar héldu vörð og vöktu yfir konungi. Lágu þeir á völlunum fyrir utan herbúðir. Þeir skiptu nóttinni með sér til vöku en þeir er áður höfðu vakað lögðust þá niður og sváfu. Þeir voru allir með alvæpni. Það var siður þeirra, þá er þeir lögðust til svefns að hver hafði hjálm á höfði og skjöld yfir sér og sverð undir höfði og skyldi leggja hægri hönd á meðalkafla.

Einnhver þeirra félaga, sá er hlotið hafði vörð hinn efsta hluta nætur, þá vaknaði hann í dagan. Þá var sverð hans í brottu. En er hann leitaði þá sá hann sverðið, hvar lá á vellinum langt frá honum. Hann stóð upp og tók sverðið. Ætlaði hann að félagar hans, þeir er vakað höfðu, mundu hafa gert til spotts að véla frá honum sverðið. Þess synjuðu þeir fyrir sig.

Slíkir atburðir urðu þrjár nætur. Þá undraðist hann mjög sjálfur og svo aðrir þeir er þetta sáu eða heyrðu og spurðu menn hann eftir hverju það mundi gegna. Þá sagði hann að sverð það var kallað Hneitir og Ólafur hinn helgi hafði átt og borið sjálfur í orustu á Stiklastöðum. Hann segir hvernug síðan hafði farið sverð það.

Síðan var þetta sagt Kirjalax konungi. Þá lét hann kalla til sín mann þann er með sverð það fór, fékk honum gull, þrenn jafnvirði sverðsins. En konungur lét sverðið bera í Ólafskirkju þá er Væringjar halda. Var það þar síðan yfir altera.

Eindriði ungi var þá í Miklagarði er þessir atburðir gerðust. Sagði hann þessa sögu í Noreg svo sem Einar Skúlason vottar í drápu þeirri er hann orti um Ólaf konung hinn helga og er þar kveðið um þenna atburð.