Heimskringla/Hákonar saga herðibreiðs/21

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Sá atburður varð á Grikklandi þá er þar var Kirjalax konungur að konungur fór herferð á Blökumannaland. En er hann kom á Péssínavöllu þá kom þar á móti honum heiðinn konungur með óvígjan her. Þeir höfðu þangað haft hestalið og vagna stóra mjög og ofan á vígskörð. En er þeir bjuggu náttból sitt þá skipuðu þeir vögnum hverjum við annan fyrir utan herbúðir sínar en þar fyrir utan grófu þeir mikið díki. Var það þá allt saman vígi svo mikið sem borg væri. Konungur hinn heiðni var blindur.

En er Grikkjakonungur kom þá settu heiðingjar fylking sína á völlum fyrir vagnaborg. Þá settu Grikkir sína fylking þar í móti og riðu hvorirtveggju og börðust. Fór þá illa og óheppilega. Flýðu þá Grikkir og höfðu fengið mikið manntjón en heiðingjar fengu sigur. Þá skipaði konungur fylking af Frökkum og Flæmingjum en síðan riðu þeir fram móti heiðingjum og börðust við þá og fór sem hinum fyrrum að margir voru drepnir en allir flýðu, þeir er undan komust. Varð þá Grikkjakonungur reiður mjög hermönnum sínum en þeir svöruðu honum, báðu hann þá taka til Væringja, vínbelgja sinna. Konungur segir svo að hann vill eigi spilla gersemum sínum svo að leiða fá menn, þótt þeir væru hraustir, móti svo miklum her.

Þá svaraði orðum konungs Þórir helsingur er þá réð fyrir Væringjum: „Þótt þar væri fyrir eldur brennandi þá mundi eg og mínir liðar þegar í hlaupa er eg vissi að það keyptist í að þér, konungur, hefðuð þá frið eftir.“

En konungur svarar: „Heitið þér á hinn helga Ólaf, konung yðarn, til fulltings og sigurs yður.“

Væringjar höfðu hálft fimmta hundrað manna. Þá tóku þeir heit sitt með handfesti og hétu því að reisa kirkju í Miklagarði með sínum kostnaði og góðra manna stoðum og láta þá kirkju vígja til vegs og dýrðar hinum helga Ólafi konungi. Síðan runnu Væringjar fram á völlinn.

En er það sáu heiðingjar þá sögðu þeir konungi sínum að þá fór enn lið af Grikkjakonungs her „og er þetta,“ segja þeir, „hönd full manna.“

Þá svarar konungur: „Hver er sá hinn tígulegi maður er þar ríður á þeim hvíta hesti fyrir liði þeirra?“

„Eigi sjáum vér þann,“ segja þeir.

Þar var eigi minni liðsmunur en svo að sex tigir heiðingja væru í móti einum kristnum manni en eigi síður héldu Væringjar til bardaga alldjarflega. En þegar er þeir komu saman þá sló ótta í lið heiðingja og hræðslu svo að þeir tóku þegar að flýja en Væringjar ráku þá og drápu brátt mikinn fjölda. En er það sáu Grikkir og Frakkar þeir er áður höfðu flúið fyrir heiðingjum, sóttu þá til og ráku flóttann með þeim. Voru þá Væringjar komnir upp í vagnaborgina. Varð þar hið mesta mannfall. En er heiðingjar flýðu þá varð handtekinn hinn heiðni konungur og höfðu Væringjar hann með sér. Tóku þá kristnir menn herbúðir heiðingja og vagnaborgina.