Heimskringla/Hákonar saga herðibreiðs/7

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Ingi konungur mælti þá til Erlings: „Mágur,“ segir hann, „nú viljum vér þínum ráðum fram fara hvernug hátta skal atlögunni en fyrir því að þess eru ráðamennirnir fúsari þá skulum vér nú að þeim leggja í dag.“

Þá mælti Erlingur: „Skútur allar og léttiskip skulu róa út um eyna og upp hina eystri kvísl og svo ofan að þeim og freista að þeir megi leysa þá frá stikunum en þá skulum vér róa stórskipunum neðan að þeim og veit eigi áður en reynt er, hvort þeir leggja því betur að en eg, sem þeir eru óðari.“

Þetta ráð líkaði öllum vel.

Nes nokkuð gekk fram milli þeirra Hákonar og sá hvorgi skipin frá öðrum. En er skútnaherinn reri ofan eftir ánni þá sáu þeir Hákon það en áður höfðu þeir verið á tali og ráðið ráðum sínum. Gátu sumir að þeir Ingi konungur mundu að leggja en margir ætluðu að þeir mundu eigi treystast er mjög þótti seinkast atlagan en þeir treystust vel viðbúnaði sínum og liði. Í þeirra flokki var mart stórmenni. Þar var Sigurður af Reyri og þeir Símonarsynir tveir. Þar var og Nikulás Skjaldvararson og Eindriði sonur Jóns mörnefs er þá var ágætastur maður og vinsælstur í Þrændalögum. Margir aðrir voru þar lendir menn og sveitarhöfðingjar.

En er þeir sáu að Inga menn reru mörgum skipum út eftir ánni þá hugðu þeir Hákon að þeir Ingi mundu flýja vilja og hjuggu tengslin frá skipunum, gripu þá til ára og reru eftir þeim og vildu reka þá. Skipin renndu skjótt fyrir straumi og er þau bar ofan eftir ánni fyrir nesið er áður var milli þá sáu þeir að meginliðið Inga lá út við eyna Hísing. Lagsmenn Inga sáu þá hvar skip Hákonar fóru og hugðu að þeir mundu að leggja. Var þar þá þys mikill og vopnabrak og eggjan og lustu þeir upp herópi. En þeir Hákon sneru skipum sínum að norðurlandinu og er þar víkhvarf nokkuð og komust af strauminum. Þeir bjuggust þar um, báru upp á land skutfestar og sneru út framstöfnum og tengdu saman öll skipin, létu austurfararknörruna liggja út frá öðrum skipum, annan fyrir ofan en annan fyrir neðan, og tengdu þá við langskipin. En í miðjum flotanum lá konungsskipið og þar næst Sigurðar skip en á annað borð konungsskipinu lá Nikulás en þar næst Eindriði Jónsson. Öll hin smærri skip lágu utar meir. Þeir höfðu nálega öll hlaðið skip sín af grjóti og vopnum.