Heimskringla/Hákonar saga herðibreiðs/8

Úr Wikiheimild

Sigurður af Reyri talaði og mælti svo: „Það er nú vænt að fram muni koma er oss hefir lengi heitið verið að fundur vor Inga mundi verða. Höfum vér nú og mjög lengi við búist og hafa margir vorir félagar stórt berkt um að eigi mundu flýja eða fálma fyrir Inga konungi eða Gregoríusi og er nú gott að minnast þeirra orða. En vér megum með minna trausti um það ræða er fyrr höfum orðið nokkuð tannsárir í vorum viðurskiptum og er það, sem hver hefir heyrt, að vér höfum mjög oft svaðilförum farið fyrir þeim. En eigi að síður er oss nauðsyn að verða við sem mannlegast og standa sem fastast því að þann eigum vér útveginn til þess að vér munum sigurinn hafa. En þótt vér höfum lið nokkuru færra þá má þó auðna ráða hvorir gagn skulu hafa. Er sú von best í voru máli að guð veit að vér mælum réttara. Ingi hefir áður höggvið niður bræður sína tvo en það er engum manni blint hverjar föðurbætur hugðar eru Hákoni konungi, þær að höggva hann niður sem aðra frændur sína, og mun það sýnast þenna dag. Hákon beiddist eigi meira frá upphafi af Noregi en þess þriðjungs er faðir hans hafði átt og var honum þess varnað. En að minni virðing er Hákon betur til kominn að taka arf eftir Eystein föðurbróður sinn heldur en Ingi eða Símon skálpur eða aðrir þeir menn er Eystein konung tóku af lífdögum. Mörgum mundi svo lítast, þeim er sálu sinni vildu þyrma, og hefðu þvílíkir stórglæpir á hendur borist sem Inga, að eigi mundu þora fyrir guði að kallast með konungsnafni og það undrast eg er guð þolir honum þá ofdirfð og það mun guð vilja að vér steypum honum. Berjumst vér djarflega því að guð mun oss sigur gefa. En ef vér föllum þá mun guð það ömbuna oss við margföldum fagnaði ef hann lér vondum mönnum valds að ganga yfir oss. Fari menn stillilega og felmti eigi ef orusta tekst. Gæti hver sín og sinna sveitbúa en guð allra vor.“

Góður rómur var ger að máli Sigurðar og hétu allir góðu um að verða vel við. Hákon konungur gekk upp á austurfararknörrinn og var þar sett skjaldborg um hann en merki hans var á langskipinu, því er hann hafði áður á verið.