Heimskringla/Hálfdanar saga svarta/1
Hálfdan var þá veturgamall er faðir hans féll. Ása móðir hans fór þegar með hann vestur á Agðir og settist þar til ríkis á Ögðum þeim er átt hafði Haraldur faðir hennar. Hálfdan óx þar upp. Var hann brátt mikill og sterkur og svartur á hár. Var hann kallaður Hálfdan svarti. Hann var nítján vetra er hann tók konungdóm á Ögðum. Fór hann þá þegar inn á Vestfold og skipti ríki við Ólaf bróður sinn svo sem fyrr er ritað.
Sama haust fór hann með her á Vingulmörk á hendur Gandálfi konungi og áttu þeir margar orustur og höfðu ýmsir sigur. En að lyktum sættust þeir og skyldi Hálfdan hafa Vingulmörk hálfa sem áður hafði haft Guðröður faðir hans.
Eftir það fór Hálfdan konungur upp á Raumaríki og lagði undir sig. Það spurði Sigtryggur konungur son Eysteins konungs. Hann hafði þá aðsetu á Heiðmörk og hafði áður lagið undir sig Raumaríki. Fór þá Sigtryggur konungur í móti Hálfdani konungi og varð þar orusta mikil og hafði Hálfdan sigur. En er flóttinn brast var Sigtryggur konungur lostinn öru undir vinstri hönd og féll hann þar. Síðan lagði Hálfdan undir sig allt Raumaríki.
Eysteinn hét annar son Eysteins konungs, bróðir Sigtryggs. Hann var konungur á Heiðmörk. En er Hálfdan konungur kom út á Vestfold þá fór Eysteinn konungur með her sinn út á Raumaríki og lagði þar þá víða undir sig.