Heimskringla/Hálfdanar saga svarta/2

Úr Wikiheimild

Hálfdan svarti spurði að ófriður var á Raumaríki. Dró hann þá her saman og fór á Raumaríki á hendur Eysteini konungi og áttu þeir orustu. Hafði Hálfdan sigur en Eysteinn flýði upp á Heiðmörk. Hálfdan konungur fór þá með her sinn á Heiðmörk eftir honum og áttu þeir þar aðra orustu og hafði Hálfdan sigur en Eysteinn flýði norður í Dala á fund Guðbrands hersis. Hann efldist þaðan að liði, fór síðan út á Heiðmörk. Hann hitti Hálfdan svarta í ey hinni miklu er liggur í Mjörs og áttu þeir þar orustu og féll mart manna af hvorumtveggjum og hafði Hálfdan konungur sigur. Þar féll Guttormur son Guðbrands hersis er mannvænstur þótti vera á Upplöndum. Þá flýði Eysteinn konungur enn norður í Dala.

Þá sendi hann Hallvarð skálk frænda sinn á fund Hálfdanar konungs að leita um sættir en fyrir sakir frændsemi gaf Hálfdan konungur upp Eysteini konungi hálfa Heiðmörk svo sem þeir frændur höfðu fyrr átt. En Hálfdan konungur lagði undir sig Þótn og þar sem Land heitir og Haðaland því að hann herjaði víða. Var hann þá og allríkur konungur.