Heimskringla/Hálfdanar saga svarta/3
Hálfdan svarti fékk Ragnhildar dóttur Haralds gullskeggs. Hann var konungur í Sogni. Þau áttu son er Haraldur konungur gaf nafn sitt og fæddist sá sveinn upp í Sogni með Haraldi konungi. En er Haraldur konungur var örvasi að aldri þá átti hann engan son og gaf hann Haraldi dóttursyni sínum ríki sitt og lét hann taka til konungs. Litlu síðar andaðist Haraldur gullskeggur. Þann sama vetur andaðist Ragnhildur dóttir hans en eftir um vorið varð sóttdauður Haraldur konungur ungi í Sogni. Þá var hann tíu vetra gamall.
Þegar er Hálfdan svarti spurði andlát hans þá byrjar hann ferð sína með miklu liði og fer norður til Sogns. Var þar vel við honum tekið. Taldi hann þar til ríkis og arfs eftir son sinn og var þar engi mótstaða. Lagði hann undir sig það ríki. Þá kom til hans Atli jarl hinn mjóvi af Gaulum. Hann var vin Hálfdanar konungs. Setti konungur hann yfir Sygnafylki að dæma þar landslög og heimta skatta til handa konungi. Fór þá konungur til Upplanda í ríki sitt.