Fara í innihald

Heimskringla/Hálfdanar saga svarta/4

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Hálfdanar saga svarta
Höfundur: Snorri Sturluson
4. kafli

Hálfdan konungur fór um haustið út á Vingulmörk.

Það var á einni nótt þar sem Hálfdan konungur var á veislu að um miðnætti kom til hans maður sá er hestvörð hélt og sagði honum að her var kominn nær bænum.

Konungur stóð upp þegar og bað hirðmenn sína vopna sig. Síðan gengur hann út í garðinn og fylkti. Því næst komu þar Gandálfssynir, Hýsingur og Helsingur, með lið mikið og tókst þegar orusta. En fyrir því að Hálfdan konungur var ofurliði borinn flýði hann til skógar og lét mart manna. Þar féll Ölvir hinn spaki fósturfaðir Hálfdanar konungs.

Eftir það dreif lið til konungs. Fór hann þá að leita Gandálfssona og hittust á Eiði við Eyja og berjast. Þar féll Hýsingur og Helsingur en Haki bróðir þeirra kom á flótta. Eftir það lagði Hálfdan konungur undir sig alla Vingulmörk en Haki flýði í Álfheima.