Heimskringla/Hálfdanar saga svarta/5

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Sigurður hjörtur er nefndur konungur á Hringaríki. Hann var meiri og sterkari en hver annarra. Hann var og manna fríðastur sýnum. Faðir hans var Helgi hinn hvassi en móðir hans var Áslaug dóttir Sigurðar orms í auga Ragnarssonar loðbrókar. Svo er sagt að Sigurður var þá tólf vetra gamall er hann drap Hildibrand berserk í einvígi og þá tólf saman. Mörg vann hann þrekvirki og er löng saga frá honum. Sigurður átti tvö börn. Ragnhildur hét dóttir hans. Hún var allra kvenna skörulegust. Var hún þá á tvítugsaldri. Guttormur hét bróðir hennar. Hann var á ungmennisaldri. En það er sagt frá atferð Sigurðar að hann reið einn saman út á eyðimerkur. Hann veiddi stór dýr og mannskæð. Hann lagði á það kapp mikið jafnan.

Það var einn dag að Sigurður reið einn saman út á merkur sem vandi hans var til. Og er hann var langa hríð riðinn kom hann fram í rjóður nokkuð í nándir Haðalandi. Þá kom þar móti honum Haki berserkur með þrjá tigu manna. Féll þar Sigurður hjörtur en tólf menn af Haka en sjálfur hann lét hönd sína og hafði þrjú sár önnur. Eftir það reið Haki við menn sína til bús Sigurðar og tók í braut Ragnhildi dóttur hans og Guttorm bróður hennar og mikið fé og marga dýrgripi og hafði heim á Haðaland. Þar átti hann bú stór. Þá lét hann efna til veislu og ætlaði að gera brúðlaup til Ragnhildar en það dvaldist fyrir að sár hans höfðust illa.

Haki Haðaberserkur lá í sárum um haustið og öndverðan vetur. En um jól var Hálfdan konungur á veislu á Heiðmörk. Hann hafði spurt öll þessi tíðindi.

Það var einn morgun snemma er konungur var klæddur, kallaði til sín Hárek gand, sagði að hann skyldi fara yfir á Haðaland „og fær mér Ragnhildi dóttur Sigurðar hjartar.“

Hárekur bjóst og hafði hundrað manna, stillti svo ferðinni að þeir komu yfir vötnin í óttu til bæjar Haka, tóku dyr allar á skála þeim er húskarlar sváfu í. Síðan gengu þeir til svefnbúrs þess er Haki svaf í og brutu upp, tóku í brott Ragnhildi og Guttorm bróður hennar og allt fé það sem þar var en þeir brenndu skálann og alla menn þá er inni voru. Þeir tjölduðu vagn einn allveglegan og settu þar í Ragnhildi og bróður hennar og fóru til íssins. En Haki stóð upp og gekk eftir þeim um hríð. En er hann kom að vatnsísinum þá sneri hann niður hjöltum á sverðinu en lagðist á blóðrefilinn svo að sverðið stóð í gegnum hann. Fékk hann þar bana og er hann heygður á vatnsbakkanum.

Hálfdan konungur sá að þeir fóru um vatnsísinn því að hann var allra manna skyggnstur. Hann sá vagn tjaldaðan og þóttist vita að erindi þeirra Háreks mundi orðið það sem hann vildi. Lét hann þá setja borð sitt og senda menn víða um byggðina og bauð til sín mörgum mönnum og var þar þann dag veisla mikil og prýðilega ger. Og að þeirri veislu fékk Hálfdan konungur Ragnhildar og var hún síðan rík drottning.

Móðir Ragnhildar var Þórný dóttir Klakk-Haralds konungs af Jótlandi, systir Þyri Danmarkarbótar er átti Gormur hinn gamli Danakonungur er þá réð Danaveldi í þann tíma.