Heimskringla/Hálfdanar saga svarta/6
Útlit
Ragnhildi drottning dreymdi drauma stóra en hún var spök að viti.
Sá var einn draumur er hana dreymdi að hún þóttist vera stödd í grasgarði sínum og þóttist taka þorn einn úr serk sér. En er hún hélt á honum þá óx hann svo að það varð teinn mikill svo að annar endir tók í jörð og varð brátt rótfastur en annar endir tók hátt í loft upp. Og því næst sýndist henni tréið svo mikið að hún fékk varla séð yfir upp. Það var og furðu digurt. Hinn neðsti hlutur trésins var rauður sem blóð en leggurinn upp fagurgrænn en limarnar hvítar sem snjár. Þá voru kvistir á trénu margir og stórir, sumir ofar en sumir neðar. Limar trésins voru svo miklar að henni þóttu dreifast um allan Noreg og enn miklu víðara.