Heimskringla/Hálfdanar saga svarta/7

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Hálfdan konung dreymdi aldrei. Honum þótti það undarlegt og bar fyrir þann mann er nefndur er Þorleifur spaki og leitaði ráða hvað er að því mætti gera. Þorleifur sagði hvað hann gerði ef hann forvitnaði nokkurn hlut, að hann færi í svínabæli að sofa og brást honum þá eigi draumur.

Konungur gerði það og birtist honum draumur þessi. Honum sýndist sem hann væri allra manna best hærður og var hár hans allt í lokkum, sumir síðir svo að tók til jarðar, sumir í miðjan legg, sumir á kné, sumir í mjöðm eða miðja síðu, sumir eigi lengra en á háls en sumir ekki meir en sprottnir upp úr hausi sem knýflar. En á lokkum hans var hvers kyns litur. En einn lokkur sigraði alla við fegurð og með ljósleik og mikilleik.

Þenna draum sagði hann Þorleifi spaka en Þorleifur þýddi svo að mikill afspringur mundi koma af honum og mundu hans ættmenn löndum ráða með miklum veg og þó eigi allir með jafnri frægð, en einn mundi sá af hans ætt koma er öllum mundi meiri og frægari. Og hyggja menn það að sá lokkur jarteini hinn helga Ólaf konung.