Heimskringla/Hálfdanar saga svarta/9

Úr Wikiheimild

Hálfdan konungur tók jólaveislu á Haðalandi. Þar varð þá undarlegur atburður jólaaftan er menn voru til borða gengnir og var það allmikið fjölmenni, að þar hvarf vist öll af borðum og allt mungát. Sat konungur hryggur eftir en hver annarra sótti sitt heimili. En til þess að konungur mætti vís verða hvað þessum atburð olli þá lét hann taka Finn einn er margfróður var og vildi neyða hann til sannrar sögu og píndi hann og fékk þó eigi af honum. Finnurinn hét þannug mjög til hjálpar er Haraldur var sonur hans og Haraldur bað honum eirðar og fékk eigi, og hleypti Haraldur honum þó í brott að óvilja konungs og fylgdi honum sjálfur. Þeir komu þar farandi er höfðingi einn hélt veislu mikla og var þeim að sýn þar vel fagnað.

Og er þeir höfðu þar verið til vors þá var það einn dag að höfðinginn mælti til Haralds: „Furðu mikið torrek lætur faðir þinn sér að er eg tók vist nokkura frá honum í vetur en eg mun þér það launa með feginsögu. Faðir þinn er nú dauður og skaltu heim fara. Muntu þá fá ríki það allt er hann hefir átt og þar með skaltu eignast allan Noreg.“