Fara í innihald

Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/12

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Haraldar saga hárfagra
Höfundur: Snorri Sturluson
12. kafli

Eftir það lagði Haraldur konungur undir sig Sunn-Mæri. Vémundur bróðir Auðbjarnar konungs hélt Firðafylki og gerðist konungur yfir. Þetta var síðla of haustið og gera menn það ráð með Haraldi konungi að hann skyldi eigi fara suður um Stað á haustdegi. Þá setti hann Rögnvald jarl yfir Mæri hvoratveggju og Raumsdal. Hafði hann um sig mikið fjölmenni. Haraldur konungur sneri þá norður aftur til Þrándheims.

Þann sama vetur fór Rögnvaldur jarl hið innra og svo suður of Fjörðu. Hann hafði njósn af Vémundi konungi og kom um nótt þar sem heitir Naustdalur. Var Vémundur konungur þar á veislu. Rögnvaldur jarl tók hús á þeim og brenndi þar inni Vémund konung með átta tigu manna.

Eftir það kom Berðlu-Kári til Rögnvalds jarls með langskip alskipað og fóru þeir báðir norður á Mæri. Tók Rögnvaldur jarl skip þau er átt hafði Vémundur konungur og allt lausafé það er hann fékk. Berðlu-Kári fór norður til Þrándheims á fund Haralds konungs og gerðist hans maður. Hann var berserkur mikill.