Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/13

Úr Wikiheimild

Um vorið eftir fór Haraldur konungur suður með landi með skipaher og lagði undir sig Firðafylki. Síðan sigldi hann austur með landi og kom fram í Vík austur. Haraldur konungur setti eftir í Fjörðum Hákon jarl Grjótgarðsson og fékk honum Firðafylki að yfirsókn.

En er konungur var austur farinn þá sendi Hákon jarl orð Atla jarli hinum mjóva að hann skyldi fara braut úr Sogni og vera jarl á Gaulum sem hann hafði fyrr haft. En Atli sagði Harald konung hafa veitt sér Sygnafylki og kveðst því mundu halda til þess er hann fyndi Harald konung. Jarlarnir þreyta þetta með sér þar til er báðir safna her. Þeir hittast á Fjölum í Stafanesvogi og áttu mikla orustu. Þar féll Hákon jarl en Atli jarl varð sár til ólífis. Fóru menn hans til Atleyjar með hann og þar andaðist hann.

Svo segir Eyvindur skáldaspillir:

Varð Hákon,
Högna meyjar
viðr, vopnber,
er vega skyldi,
og sinn aldr
í odda gný
Freys áttungr
á Fjölum lagði.
Og þar, varð,
er vinir féllu
magar Hallgarðs
manna blóði
Stafaness
við stóran gný
vinar Lóðurs
vogr of blandinn.