Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/14

Úr Wikiheimild

Haraldur konungur kom liði sínu austur í Vík og lagði inn til Túnsbergs. Þar var þá kaupstaður. Haraldur konungur hafði þá verið í Þrándheimi fjóra vetur og komið ekki á þeirri stundu í Víkina.

Hann spurði þau tíðindi að Eiríkur Svíakonungur Emundarson hafði lagt undir sig Vermaland og hann tók skatta af öllum markbyggðum og hann kallaði Vestra-Gautland allt norður til Svínasunds og hið vestra allt með hafinu, það kallaði Svíakonungur allt sitt ríki og tók skatta af. Hann hafði þar sett jarl er kallaður var Hrani hinn gauski. Hann hafði ríki millum Svínasunds og Gautelfar. Hann var ríkur jarl.

Haraldi konungi var svo sagt frá orðum Svíakonungs að hann skyldi eigi fyrr létta en hann hefði svo mikið ríki í Víkinni sem fyrr hafði þar haft Sigurður hringur eða Ragnar loðbrók sonur hans, en það var Raumaríki og Vestfold allt út til Grenmars, svo og Vingulmörk og allt suður þaðan. Hafði þá um öll þessi fylki snúist til hlýðni við Svíakonung margir höfðingjar og mikið fólk annað.

Þetta líkaði stórilla Haraldi konungi og stefndi hann þing við bændur þar á Foldinni. Bar hann þá sakir á hendur þeim bóndum er hann kenndi landráð við sig. Bændur gerðu skyn fyrir, sumir guldu fé, sumir sættu refsingum. Fór hann svo um sumarið of það fylki.

Um haustið fór hann upp á Raumaríki og fór þar allt með sama hætti, að hann lagði undir sig það fylki. Þá spurði hann öndverðan vetur að Eiríkur Svíakonungur reið um Vermaland að veislum með hirð sína.