Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/15

Úr Wikiheimild

Haraldur konungur býr ferð sína austur um Eiðaskóg og kom fram í Vermalandi. Lét hann þar búa veislur fyrir sér.

Áki hét maður. Hann var ríkastur bóndi á Vermalandi og stórauðigur og þá gamall að aldri. Hann sendi menn til Haralds konungs og bauð honum til veislu. Konungur hét ferð sinni. Áki bauð Eiríki konungi og til veislu og lagði honum hinn sama stefnudag. Áki átti mikinn skála og fornan. Þá lét hann gera annan veisluskála nýjan og eigi minna og vanda að öllu. Hann lét þann skála tjalda allan nýjum búnaði en hinn forna skála fornum búnaði.

En er konungar komu til veislunnar var skipað Eiríki konungi í hinn forna skála og hans liði en Haraldi konungi í hinn nýja skála með sitt lið. Með sama hætti var skipað borðbúnaði öllum, að Eiríkur konungur og hans menn höfðu öll forn ker og svo horn og þó allvel búin en Haraldur konungur og hans menn höfðu öll ný ker og horn og búin vel. Voru þau öll líkuð og skyggð sem gler. Drykkur var hvortveggi hinn besti. Áki bóndi hafði verið fyrr maður Hálfdanar konungs.

En er sá dagur kom er veislan var öll bjuggust konungar til brautferðar. Voru þá reiðskjótar búnir. Þá gekk Áki fyrir Harald konung og leiddi með sér son sinn tólf vetra gamlan er Ubbi hét.

Áki mælti: „Ef þér konungur þykir nokkurar vináttu vert fyrir heimboðið þá launa það syni mínum. Hann gef eg þér til þjónustumanns.“

Konungur þakkaði honum með mörgum fögrum orðum sinn fagnað og hét honum þar í mót fullkominni sinni vináttu. Síðan greiddi hann fram stórar gjafar er hann gaf konungi.

Síðan gekk Áki til Svíakonungs. Var þá Eiríkur konungur klæddur og búinn til ferðar og var hann heldur ókátur. Áki tók þá góða gripi og gaf honum. Konungur svarar fá og steig á bak hesti sínum. Áki gekk á leið með honum og talaði við hann. Skógur var nær þeim og lá þar vegurinn yfir.

En er Áki kom á skóginn þá spurði konungur hann: „Hví skiptir þú svo fagnaði með okkur Haraldi konungi að hann skyldi hafa af öllu hinn betra hlut? Og veistu að þú ert minn maður.“

„Eg hugði,“ segir Áki, „að yður konungur og yðra menn mundi engan fagnað skort hafa að þessi veislu. En er þar var forn búnaður er þér drukkuð þá veldur það því að þér eruð nú gamlir. En Haraldur konungur er nú í blóma aldurs. Fékk eg honum af því nýjan búnað. En þar er þú minntir mig að eg væri þinn maður þá veit eg hitt eigi síður að þú ert minn maður.“

Þá brá konungur sverði og hjó hann banahögg, reið braut síðan.

En er Haraldur konungur var búinn að stíga á hest sinn þá bað hann kalla til sín Áka búanda. En er menn leituðu hans þá runnu sumir þannug sem Eiríkur konungur hafði riðið. Fundu þeir þar Áka dauðan, fóru síðan aftur og sögðu konungi.

En er hann spyr þetta heitir hann á menn sína að þeir skulu hefna Áka búanda. Ríður þá Haraldur konungur þannug er áður hafði riðið Eiríkur konungur til þess er hvorir verða varir við aðra. Þá ríða hvorir sem mest mega til þess er Eiríkur konungur kemur á skóg þann er skilur Gautland og Vermaland. Þá snýr Haraldur konungur aftur á Vermaland, leggur þá land það undir sig en drap menn Eiríks konungs hvar sem hann stóð þá. Fór Haraldur konungur um veturinn aftur á Raumaríki.