Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/16

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Haraldar saga hárfagra höfundur Snorri Sturluson
16. Ferð Haralds konungs til Túnsbergs

Haraldur konungur fór um veturinn út til Túnsbergs til skipa sinna. Býr hann þá skipin og heldur austur yfir fjörðinn, leggur þá undir sig alla Vingulmörk. Hann er úti á herskipum allan veturinn og herjar á Ranríki.

Svo segir Þorbjörn hornklofi:

Úti vill jól drekka,
ef skal einn ráða,
fylkir hinn framlyndi
og Freys leik heyja,
ungr leiddist eldvelli
og inni að sitja,
varma dyngju
eða vöttu dúns fulla.

Gautar höfðu safnað fyrir allt um landið.