Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/35

Úr Wikiheimild

Haraldur konungur var þá fimmtugur að aldri er synir hans voru margir rosknir en sumir dauðir. Þeir gerðust margir ofstopamenn miklir innanlands og voru sjálfir ósáttir. Þeir ráku af eignum jarla konungs en suma drápu þeir.

Haraldur konungur stefndi þá þing fjölmennt austur í landi og bauð til Upplendingum. Þá gaf hann sonum sínum konunganöfn og setti það í lögum að hans ættmanna skyldi hver konungdóm taka eftir sinn föður en jarldóm sá er kvensifur væri af hans ætt kominn. Hann skipti landi með þeim, lét hafa Vingulmörk, Raumaríki, Vestfold, Þelamörk. Það gaf hann Ólafi, Birni, Sigtryggi, Fróða, Þorgísli. En Heiðmörk og Guðbrandsdali gaf hann Dag og Hring og Ragnari. Snæfríðarsonum gaf hann Hringaríki, Haðaland, Þótn og það er þar liggur til. Guttormi hafði hann gefið til yfirsóknar frá Elfi til Svínasunds og Ranríki. Hann hafði hann sett til landvarnar austur við landsenda sem fyrr er ritað.

Haraldur konungur sjálfur var oftast um mitt land. Hrærekur og Guðröður voru jafnan innan hirðar með konungi og höfðu veislur stórar á Hörðalandi og Sogni.

Eiríkur var með Haraldi konungi föður sínum. Honum unni hann mest sona sinna og virti hann mest. Honum gaf hann Hálogaland og Norð-Mæri og Raumsdal. Norður í Þrándheimi gaf hann yfirsókn Hálfdani svarta og Hálfdani hvíta og Sigröði.

Hann gaf sonum sínum í hverju þessu fylki hálfar tekjur við sig og það með að þeir skyldu sitja í hásæti skör hærra en jarlar en skör lægra en sjálfur hann. En það sæti eftir hans dag ætlaði sér hver sona hans en hann sjálfur ætlaði það Eiríki. En Þrændir ætluðu það Hálfdani svarta en Víkverjar og Upplendingar unnu þeim best ríkis er þar voru þeim undir hendi. Af þessu varð þar mikið sundurþykki enn af nýju milli þeirra bræðra.

En með því að þeir þóttust hafa lítið ríki þá fóru þeir í hernað, svo sem sagt er að Guttormur féll í Elfarkvíslum fyrir Sölva klofa. Eftir það tók Ólafur við því ríki er hann hafði haft. Hálfdan hvíti féll á Eistlandi. Hálfdan háleggur féll í Orkneyjum. Þeim Þorgísli og Fróða gaf Haraldur konungur herskip og fóru þeir í vesturvíking og herjuðu um Skotland og Bretland og Írland. Þeir eignuðust fyrst Norðmanna Dyflinni. Svo er sagt að Fróða væri gefinn banadrykkur en Þorgils var lengi konungur yfir Dyflinni og var svikinn af Írum og féll þar.