Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/43

Úr Wikiheimild

Haraldur konungur var þá áttræður að aldri. Gerðist hann þá þungfær svo að hann þóttist eigi mega fara yfir land eða stjórna konungsmálum. Þá leiddi hann Eirík son sinn til hásætis síns og gaf honum vald yfir landi öllu.

En er það spurðu aðrir synir Haralds konungs þá settist Hálfdan svarti í konungshásæti. Tók hann þá til forráða allan Þrándheim. Hurfu að því ráði allir Þrændir með honum.

Eftir fall Bjarnar kaupmanns tók Ólafur bróðir hans ríki yfir Vestfold og til fósturs Guðröð son Bjarnar. Tryggvi hét sonur Ólafs. Voru þeir Guðröður fóstbræður og nær jafnaldrar og báðir hinir efnilegstu og atgervimenn miklir. Tryggvi var hverjum manni meiri og sterkari.

En er Víkverjar spurðu að Hörðar höfðu tekið til yfirkonungs Eirík þá tóku þeir Ólaf til yfirkonungs í Víkinni og hélt hann því ríki. Þetta líkaði Eiríki stórilla.

Tveim vetrum síðar varð Hálfdan svarti bráðdauður inn í Þrándheimi að veislu nokkurri og var það mál manna að Gunnhildur konungamóðir hefði keypt að fjölkunnigri konu að gera honum banadrykk. Eftir það tóku Þrændir Sigröð til konungs.