Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/44

Úr Wikiheimild

Haraldur konungur lifði þrjá vetur síðan er hann hafði Eiríki gefið einvald ríkisins, var þá á Rogalandi eða á Hörðalandi að stórbúum er hann átti. Eiríkur og Gunnhildur áttu son er Haraldur konungur jós vatni og gaf nafn sitt, sagði svo að sá skyldi konungur vera eftir Eirík föður sinn.

Haraldur konungur gifti flestar dætur sínar innanlands jörlum sínum og eru þaðan komnar miklar kynkvíslir.

Haraldur konungur varð sóttdauður á Rogalandi. Er hann heygður á Haugum við Karmtsund. Í Haugasundi stendur kirkja en við sjálfan kirkjugarðinn í útnorður er haugur Haralds konungs hins hárfagra. Fyrir vestan kirkjuna liggur legsteinn Haralds konungs, sá er lá yfir legi hans í hauginum og er steinninn hálfs fjórtánda fets langur og nær tveggja alna breiður. Í miðjum hauginum var leg Haralds konungs. Þar var settur steinn annar að höfði en annar að fótum og lögð þar hellan á ofan en hlaðið grjóti tveim megin utan undir. Þeir steinar standa nú þar í kirkjugarðinum er þá voru í hauginum og nú var frá sagt.

Svo segja fróðir menn að Haraldur hinn hárfagri hafi verið allra manna fríðastur sýnum og sterkastur og mestur, hinn örvasti af fé og allvinsæll við sína menn. Hann var hermaður mikill öndverða ævi.

Og þýða menn það nú að vitað hafi um tré það hið mikla er móður hans sýndist í draumi fyrir burð hans, er hinn neðsti hlutur trésins var rauður sem blóð en þá var leggurinn upp frá fagur og grænn, að það jartegndi blóma ríkis hans. En að ofanverðu var hvítt tréið. Þar sýndist það að hann mundi fá elli og hæru. Kvistir og limar trésins boðuðu afkvæmi hans er um allt land dreifðist og af hans ætt hafa verið jafnan síðan konungar í Noregi.