Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/101

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Haralds saga Sigurðarsonar
Höfundur: Snorri Sturluson
101. Dauði Magnúss konungs

Magnús konungur réð fyrir Noregi Haraldsson hinn fyrsta vetur eftir fall Haralds konungs en síðan réð hann landi tvo vetur með Ólafi bróður sínum. Voru þeir þá tveir konungar. Hafði Magnús hinn nyrðra hlut lands en Ólafur hinn eystra. Magnús konungur átti son er Hákon hét. Hann fóstraði Steigar-Þórir. Var hann hinn mannvænsti maður.

Eftir fall Haralds konungs Sigurðarsonar taldi Sveinn Danakonungur að slitið væri friði milli Norðmanna og Dana, taldi eigi lengur verið hafa frið settan en þeir lifðu báðir, Haraldur og Sveinn. Var þá útboð í hvorutveggja ríkinu. Höfðu synir Haralds almenning fyrir Noregi að liði og skipum en Sveinn konungur fór sunnan með Danaher. Fóru þá sendimenn milli þeirra og báru sættarboð. Sögðu Norðmenn að þeir vildu annaðhvort halda hina sömu sætt sem fyrr var ger eða berjast að öðrum kosti.

Því var þetta kveðið:

Varði ógnarorðum
Ólafr og friðmálum
jörð, svo að engi þorði
allvalda til kalla.

Svo segir Steinn Herdísarson í Ólafsdrápu:

Sína mun fyr Sveini
sóknstrangr í Kaupangi,
þar er heilagr gramr hvílir,
hann er ríkr jöfur, banna.
Ætt sinni mun unna
Ólafr konungr hála,
Úlfs þarfa þar arfi,
alls Noregs, til kalla.

Í þessum stefnuleiðangri var sætt ger milli konunganna en friður milli landa.

Magnús konungur fékk vanheilindi, reformasótt, og lá nokkura hríð. Hann andaðist í Niðarósi og var þar jarðaður. Var hann vinsæll konungur af allri alþýðu.