Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/100

Úr Wikiheimild

Halldór sonur Brynjólfs gamla úlfalda var vitur maður og höfðingi mikill.

Hann mælti svo þá er hann heyrði ræður manna að menn misjöfnuðu mjög skaplyndi þeirra bræðra, Ólafs hins helga konungs og Haralds, Halldór sagði svo: „Eg var með báðum þeim bræðrum í kærleikum miklum og var mér hvorstveggja skaplyndi kunnigt. Fann eg aldrei tvo menn skaplíkari. Þeir voru báðir hinir vitrustu og hinir vopndjörfustu, menn ágjarnir til fjár og ríkis, ríklyndir, ekki alþýðlegir, stjórnsamir og refsingasamir. Ólafur konungur braut landsfólk til kristni og réttra siða en refsaði grimmlega þeim er daufheyrðust við. Þoldu landshöfðingjar honum eigi réttdæmi og jafndæmi og reistu her í móti honum og felldu hann á eigu sinni sjálfs. Varð hann fyrir það heilagur. En Haraldur herjaði til frægðar sér og ríkis og braut allt fólk undir sig, það er hann mátti. Féll hann og á annarra konunga eigu. Báðir þeir bræður voru menn hversdaglega siðlátir og veglátir. Þeir voru og víðförlir og eljamarmenn miklir og urðu af slíku víðfrægir og ágætir.“