Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/99

Úr Wikiheimild
Ótitlað


Einum vetri eftir fall Haralds konungs var flutt vestan af Englandi lík hans og norður til Niðaróss og var jarðað í Maríukirkju þeirri er hann lét gera.

Var það allra manna mál að Haraldur konungur hafði verið umfram aðra menn að speki og ráðsnilld, hvort er hann skyldi til taka skjótt eða gera löng ráð fyrir sér eða öðrum. Hann var allra manna vopndjarfastur. Hann var og sigursæll svo sem nú var ritið um hríð.

Svo segir Þjóðólfur:

Áræðis naut eyðir
aldyggr Selundbyggja.
Hugr ræðr hálfum sigri,
Haraldr sannar það, manna.

Haraldur konungur var fríður maður og tígulegur, bleikhár og bleikt skegg og langa kampa, nokkuru brúnin önnur ofar en önnur, miklar hendur og fætur og vel vaxið hvorttveggja. Fimm alna er hátt mál hans. Hann var grimmur óvinum og refsingasamur um allar mótgerðir.

Svo segir Þjóðólfur:

Refsir reyndan ofsa
ráðgegn Haraldr þegnum.
Hykk, að hilmis rekkar
haldi upp því, er valda.
Sverðs hafa slíkar byrðar,
sanns nýtr hver við annan,
Haraldr skiptir svo heiftum,
hljótendr, er sér brjóta.

Haraldur konungur var hinn ágjarnasti til ríkis og til allra farsællegra eigna. Hann var stórgjöfull við vini sína þá er honum líkaði vel við.

Svo segir Þjóðólfur:

Mörk lét veitt fyr verka
vekjandi mér snekkju,
hann lætr hylli sinnar,
hjaldrs, tilgerðir valda.

Haraldur konungur var þá fimmtugur að aldri er hann féll. Engar frásagnir merkilegar höfum vér frá uppruna hans fyrr en hann var fimmtán vetra, þá er hann var á Stiklastöðum í orustu með Ólafi konungi bróður sínum, en síðan lifði hann hálfan fjórða tug vetra. En alla þá stund varð honum aldregi á milli aga og ófriðar. Haraldur konungur flýði aldregi úr orustu en oft leitaði hann sér farborða fyrir ofurefli liðs er hann átti við að eiga. Allir menn sögðu það, þeir er honum fylgdu í orustu og hernaði, að þá er hann varð staddur í miklum háska og bar skjótt að höndum að það ráð mundi hann upp taka sem allir sáu eftir að vænst hafði verið að hlýða mundi.