Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/98

Úr Wikiheimild

Ólafur sonur Haralds konungs hélt liði sínu braut af Englandi og sigldi út af Hrafnseyri og kom um haustið til Orkneyja og voru þar þau tíðindi að María dóttir Haralds konungs Sigurðarsonar hafði orðið bráðdauð þann sama dag og á þeirri sömu stundu er Haraldur konungur féll, faðir hennar. Ólafur dvaldist þar um veturinn.

En eftir um sumarið fór Ólafur austur til Noregs. Var hann þar þá tekinn til konungs með Magnúsi bróður sínum. Ellisif drottning fór vestan með Ólafi stjúpsyni sínum og Ingigerður dóttir hennar. Þá kom og vestan um haf með Ólafi Skúli, er síðan var kallaður konungsfóstri, og Ketill krókur bróðir hans. Þeir voru báðir göfgir menn og kynstórir af Englandi og báðir forvitra. Voru þeir báðir hinir kærstu Ólafi konungi. Fór Ketill krókur norður á Hálogaland. Fékk Ólafur konungur honum gott kvonfang og er frá honum komið mart stórmenni.

Skúli konungsfóstri var vitur maður og skörungur mikill, manna fríðastur sýnum. Hann gerðist forstjóri í hirð Ólafs konungs og talaði á þingum og réð öllum landráðum með konungi. Ólafur konungur bauð að gefa Skúla fylki eitt í Noregi það er honum þætti best með öllum tökum og skyldum þeim er konungur átti.

Skúli þakkaði honum boð sitt og lést vilja beiðast af honum annarra hluta „fyrir því ef konungaskipti verður, kann vera að rjúfist gjöfin. Eg vil,“ segir hann, „nokkurar eignir þiggja er liggja nær kaupstöðum þeim er þér herra eruð vanir að sitja og taka jólaveislur.“

Konungur játti honum þessu og skeytti honum jarðir austur við Konungahellu og við Ósló, við Túnsberg, við Borg, við Björgvin og norður við Niðarós. Þær voru nálega hinar bestu eignir í hverjum stað og hafa þær eignir legið síðan undir þá ættmenn er af Skúla ætt eru komnir.

Ólafur konungur gifti honum frændkonu sína, Guðrúnu Nefsteinsdóttur. Móðir hennar var Ingiríður dóttir Sigurðar konungs sýr og Ástu. Hún var systir Ólafs konungs hins helga og Haralds konungs. Sonur Skúla og Guðrúnar var Ásólfur á Reini. Hann átti Þóru dóttur Skofta Ögmundarsonar. Sonur þeirra Ásólfs var Guttormur á Reini, faðir Bárðar, föður Inga konungs og Skúla hertoga.