Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/12

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Haraldur fór með liði sínu út til Jórsalalands, fór þá síðan yfir til Jórsalaborgar. En hvar sem hann fór um Jórsalaland voru allar borgir og kastalar gefnir í vald hans.

Svo segir Stúfur skáld er heyrt hafði konunginn sjálfan frá þessum tíðindum segja:

Fór ofrhugi hinn efri
eggdjarfr und sig leggja,
fold var víga valdi
virk, Jórsali úr Girkjum.
Ok með ærnu ríki
óbrunnin kom gunnar
heimil jörð und herði.
Hafi ríks þars vel líkar.

Hér segir frá því að þetta land kom óbrunnið og óherjað í vald Haralds. Fór hann þá út til Jórdanar og laugaði sig þar sem háttur er til annarra pálmara. Haraldur varði stórfé til grafar drottins og kross hins helga og til annarra heilagra dóma á Jórsalalandi. Þá friðaði hann veginn allt út til Jórdanar og drap raufara og annað hernaðarfólk.

Svo segir Stúfur:

Stóðust ráð og reiði,
rann það svikum manna,
Egða grams á ýmsum
orð Jórdanar borðum.
Enn fyr afgerð sanna,
illa gát, frá stilli
þjóð fékk vísan voða,
vist um aldr með Kristi.

Þá fór hann aftur til Miklagarðs.