Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/14

Úr Wikiheimild

En er Haraldur kom mjög svo til dýflissunnar þá sýndist honum hinn helgi Ólafur konungur og segir að hann mundi hjálpa honum. Þar á strætinu var síðan ger kapella og helguð Ólafi konungi og hefir sú kapella þar staðið síðan. Dýflissa sú var þannug ger að þar er turn hár og opinn ofan en dyr af strætinu í að ganga. Var Haraldur þar inn látinn og með honum Halldór og Úlfur.

Næstu nótt eftir kom ein rík kona ofan á dýflissuna og hafði gengið upp með stigum nokkurum og þjónustumenn hennar tveir. Þau létu síga ofan streng nokkurn í dýflissuna og drógu þá upp. Þessari konu hafði hinn helgi Ólafur konungur unnið bót fyrr og hafði þá vitrast henni að hún skyldi leysa bróður hans úr prísund.

Þá fór Haraldur þegar til Væringja og stóðu þeir upp allir í mót honum og fögnuðu honum vel. Síðan vopnaðist allt liðið og gengu þar til er konungurinn sva. Þeir taka konunginn höndum og stinga úr bæði augu.

Svo segir Þórarinn Skeggjason í sinni drápu:

Náði gerr enn glóðum
Grikklands, jöfur handa,
stólþengill gekk ströngu
steinblindr aðalmeini.

Svo segir og Þjóðólfur skáld:

Stólþengils lét stinga,
styrjöld var þá byrjuð,
eyðir augun bæði
út heiðingja sútar.
Lagði allvaldr Egða
austr á bragning hraustan
grálegt mark, en Girkja
götu illa fór stillir.

Í þessum tveim drápum Haralds og mörgum öðrum kvæðum hans er getið þess að Haraldur blindaði sjálfan Grikkjakonung. Nefna mætti til þess hertoga eða greifa eða annars konar tignarmenn ef þeir vissu að það væri sannara því að sjálfur Haraldur flutti þessa sögn og þeir menn aðrir er þar voru með honum.