Fara í innihald

Heimskringla/Haralds saga Sigurðarsonar/15

Úr Wikiheimild


Um þá sömu nótt gengu þeir Haraldur að þeim herbergjum er María svaf í og tóku hana í brott með valdi.

Síðan gengu þeir til galeiða Væringja og tóku tvær galeiðurnar, reru síðan inn í Sjáviðarsund. En er þeir komu þar er járnrekendur lágu um þvert sundið þá mælti Haraldur að menn skyldu skipast til ára á hvorritveggju galeiðinni en þeir menn er eigi reru skyldu allir hlaupa aftur í galeiðina og hafa hver húðfat sitt í faðmi sér. Renndu svo galeiðurnar upp á járnrekendur. Þegar er festi og skriðinn tók af þá bað Haraldur alla menn hlaupa fram í. Þá steypti galeið þeirri er Haraldur var á og stökk sú af járnum við riðinn en önnur sprakk er reið á járnunum og týndist þar mart en sumt var tekið af sundi. Með þessu komst Haraldur út af Miklagarði, fór svo inn í Svartahaf.

Og áður en hann sigldi frá landi setti hann upp á land jungfrúna og fékk henni gott föruneyti aftur til Miklagarðs, bað hana þá segja Zóe frændkonu sinni hversu mikið vald hún hafði á Haraldi eða hvort nokkuð hefði drottningar ríki fyrir staðið að hann mætti fá jungfrúna.

Þá sigldi Haraldur norður í Ellipalta, fór þaðan allt um Austurríki.

Í þessum ferðum orti Haraldur gamanvísur og eru saman sextán og eitt niðurlag að öllum. Þessi er ein:

Sneið fyr Sikiley víða
súð. Vorum þá prúðir.
Brýnt skreið, vel til vonar,
vengis hjörtr und drengjum.
Vætti eg minnr að motti
muni enn þinig nenna.
Þó lætr Gerðr í Görðum
gollhrings við mér skolla.

Því veik hann til Ellisifjar dóttur Jarisleifs konungs í Hólmgarði.